Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Tónlistarkonan Laufey: „Þetta er eins og í kvikmynd“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég trúi þessu eiginlega ekki. Ég bjóst ekki við þessu,“ segir Laufey Lin Jónsdóttir tónlistarmaður en platan hennar Everything I Know About Love situr í tíunda sæti yfir vinsælustu nýju plöturnar á topplista Spotify í Bandaríkjunum. „Tónlistin mín er í svolítið gömlum stíl; það er mikið af djasstónum og klassískum tónum og markmið mitt hefur alltaf verið að koma eldri tónlist til nýrrar kynslóðar þannig að ég bjóst alls ekki við því að hún kæmist á einhvern topplista þar sem er oftast popptónlist. Þetta kom þess vegna mikið á óvart en þetta eru miklar gleðifréttir.“

Laufey hefur vakið mikla athygli að undanförnu. Hver er galdurinn á bak við þetta? „Ég veit það ekki. Ég held að það skipti máli að vera samkvæmur sjálfum sér; að halda áfram að gefa út tónlist og vera fljótur að bregðast við þegar stórir hlutir gerast. Ég held það sé líka mikilvægt þessa dagana að tónlistarmenn nýti samfélagsmiðla og hleypi fólki inn í líf sitt. Segi sögu.“

 

Spilaði 15 ára með SÍ

Laufey er 23 ára og er dóttir hjónanna Jóns Sigurgeirssonar og Wei Lin sem er kínversk og fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Afi hennar og amma í Kína voru tónlistarprófessorar og dvaldi fjölskyldan almennt í Kína í tvo mánuði á hverju sumri. „Ég tala kínversku við mömmu mína þannig að Kína er mikill partur af mér.“ Laufey á tvíburasystur, Júníu, sem er fiðluleikari og listrænn stjórnandi.

Systurnar ólust upp í Reykjavík og í fimm ár í Washington þar sem faðir þeirra vann á þeim árum.

- Auglýsing -

„Ég ólst upp í miklum tónlistarheimi á Íslandi. Ég byrjaði að spila á píanó þegar ég var fjögurra ára og á selló þegar ég var átta ára og ég var í Tónlistarskólanum í Reykjavík í meira en 10 ár. Ég byrjaði að syngja þegar ég var svona 12-13 ára.“

Sígildir fiðlutónar úr fiðlu móðurinnar hljómuðu mikið á heimilinu og segir Laufey að faðir sinn hafi hlustað mikið á djasstónlist sem hafði líka áhrif. Hún segist hafa heillast mjög mikið af djasstónlistinni. „Hún er pínu eins og klassísk tónlist en samt nýrri. Mér fannst hún svo rómantísk og falleg.“ Ella Fitzgerald og Billie Holiday voru í uppáhaldi. „Svo elskaði ég söngleikjamyndir eins og Singing in the Rain og Sound of Music.“

Mig langaði alltaf til að finna leiðir til þess að blanda þessum stílum einhvern veginn saman.

Laufey segist hafa verið með frekar djúpa rödd þannig að hún hafi tengt meira við djasssöngkonur heldur en poppsöngkonur.

- Auglýsing -

„Það er alveg ljóst að ást mín fyrir eldri tónlist, klassískri tónlist og djasstónlist hefur komið í gegnum mömmu mína af því að ég ólst upp í kringum þannig tónlist. Og mér finnst hún vera svo falleg og svo tímalaus. Og mig langar til að blanda svona tónlist saman við popptónlist því ég elska líka popptónlist og hlusta mikið á hana. Mig langaði alltaf til að finna leiðir til þess að blanda þessum stílum einhvern veginn saman.“

Laufey segist hafa verið 13-14 ára þegar hún byrjaði að syngja og spila í hljómsveit á sellóið sitt. Hún var 15 ára þegar hún spilaði jólalag á sellóið sitt á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún tók þátt í Ísland Got Talent árið 2014 og hún tók þátt í The Voice Iceland árið 2015. „Þetta var skemmtilegt. Ég tók þetta ekkert of alvarlega enda var ég frekar ung.“

 

Blanda

Tónlistin togaði af svo miklum krafti í Laufeyju að 19 ára gömul flutti hún til Boston til að hefja nám við hinn virta tónlistarskóla Berklee College of Music. Þar hélt hún áfram sellónáminu auk þess að nema meðal annars tónsmíðar, pródúseringu og tónlistarviðskiptafræði.

Ég gaf út mitt fyrsta lag þremur vikum eftir að Covid-faraldurinn skall og þetta byrjaði að rúlla frekar hratt.

„Þegar Covid-faraldurinn hófst var ég mikið heima og byrjaði að semja mjög mikið. Ég birti upptökur á netinu til að sjá hvort einhver myndi hlusta og það er alger draumur hvernig þetta gerðist allt. Ég gaf út mitt fyrsta lag þremur vikum eftir að Covid-faraldurinn skall og þetta byrjaði að rúlla frekar hratt.“

Og það rúllar enn og stoppar ekki.

„Ég spilaði alltaf mikið og mig langaði til að semja en ég átti svo erfitt með að gera það því að klassísk tónlist kennir manni náttúrlega að fylgja reglum og fylgja blaðsíðum og nótum. En í djasstónlist og popptónlist er maður að skapa sjálfur en ekki endilega að fylgja einhverjum reglum á síðum. Þannig að það tók pínu tíma að aðlagast. Þegar ég flutti út og byrjaði í tónlistarskólanum þá þurfti ég aðeins að læra að sleppa öllum þessum reglum sem ég var búin að vera að læra og leyfa mér bara að gera hvað sem var og prófa mig áfram sem ég náði loksins að gera.“

Það er stundum hægt að þekkja pensilför myndlistarmanna. Hvernig er hægt að þekkja tónlist Laufeyjar?

Ég spila á sellóið í meira en helmingi af lögunum.

„Ég held að það sé í gegnum þessa blöndu af djassi, klassík og popptónlist. Hún er einhvers staðar mitt á milli. Ég spila á sellóið í meira en helmingi af lögunum þannig að það er mikið af strengjapörtum og textinn getur líka verið svolítið fyndinn. Ég geri frekar mikið grín að sjálfri mér.“

Hvers vegna?

„Ég held að lífið geti stundum verið svolítið alvarlegt og sérstaklega þegar kemur að ástarlögum. Sem ung kona getur maður verið svolítið skrýtinn og gert hluti sem maður mun hlæja að eftir nokkur ár. Og ég er bara strax að hlæja í textunum. Það á ekki að taka hluti of alvarlega. Lífið getur stundum verið svo erfitt.“

Laufey Lin Jónsdóttir
(Mynd: Gemma Warren.)

Ástarsorgin

Laufey semur textana við lögin sín.

„Ég átti svo erfitt með að semja texta og vissi ekki hvað ég átti að skrifa um af því að ég var svo sein að byrja að fara á stefnumót, hugsa um stráka og fara í partí. Það var ekki fyrr en ég flutti út að ég byrjaði að upplifa það að vera ung kona í nýrri borg og byrjaði að deita aðeins. Og ég hafði loksins eitthvað til að semja um. Ég var í pínu ástarsorg þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt, Street by Street. Það var strákur sem hætti með mér í Boston og ég einhvern veginn upplifði það að hata alla borgina af því að það minnti mig allt á hann. Ég hugsaði með mér að ég yrði að semja eitthvað um þetta svo mér liði betur. Þannig að ég samdi Street by Street og textinn fjallar um að láta ekki einhvern strák eða slæma ímynd eyðileggja heila borg fyrir manni. Þetta lag var mikið „turning point“ fyrir mig bæði sem tónlistarkonu og líka sem manneskju.

Ég tala alveg beint út frá hjartanu í textunum.

Ég hef alltaf verið mjög hreinskilin manneskja en ég átti erfitt með að vera hreinskilin með tónlist; en eftir þetta hef ég ef eitthvað er verið of hreinskilin. Ég tala alveg beint út frá hjartanu í textunum.“ Hún segir að þrátt fyrir allt sé augljóst að hún hafi aldrei verið almennilega ástfangin þannig séð. „Ástarsorgin mín hefur falist í að maður er að missa eitthvað sem maður var ekki einu sinni með. Það er þannig tilfinning sem getur verið svo erfið. Ég held að margt ungt fólk tengi við hvernig sé að vera leiður yfir einhverju sem var ekki einu sinni til dæmis samband.“

Það var í lok árs 2019 og í byrjun árs 2020 sem þetta listaverk, Street by Street, varð til.

 

 

This view used to bring

A smile to my face

Lately it’s done nothing but

Remind me of the way

The way that you used to

Give me butterflies

Took me 21 days to

Walk our former paradise

Paradise, bu-bu-bu-day duh

Step by step, brick by brick

I’m reclaiming what’s mine

This city is way too small

To give away to just one guy

Street by street, breath by breath

From the Back Bay to the sky

I’m taking back my city

I’m taking back my life

 

Annað og nýrra lag um ástarsorg sem tengist öðrum strák heitir Let You Break My Heart Again. Heil sinfóníuhljómsveit spilar undir. „Ég fékk að taka það upp með Fílharmóníuhljómsveitinni í London. Það var klikkað af því að það er svo góð hljómsveit.“

 

Feeling kind of sick tonight
All I’ve had is coffee and leftover pie
It’s no wonder why

Still you take up all my mind
I don’t even think that you care like I do
I should stop
Heaven knows I’ve tried

One day
I will stop falling in love with you
Some day
Someone will like me like I like you

Until then I’ll drink my coffee
Eat my pie
Pretend that we are more than friends
Then of course I’ll let you break my heart again

 

Skemmtilegt, skrýtið og alls konar

Berklee College of Music. Hvaða máli skiptir það fyrir Laufeyju að hafa farið í svona virtan tónlistarskóla?

Það var ákveðið tákn um að þora að fara í tónlist. Ég þorði ekki að verða söngkona og tónlistarkona og það var ekki fyrr en ég fékk fullan styrk að fara í Berklee að ég hugsaði að þetta væri séns sem ég yrði að grípa. Ég hefði eiginlega engu að tapa. Ég hafði áður verið í sígildu tónlistarnámi en í Berklee var aðeins meira popp og djass og ég kynntist þar fólki frá ýmsum löndum sem spilaði öðruvísi tónlist. Það var gott fyrir mig.“

Laufey útskrifaðist frá Berklee í fyrra og hefur búið í Los Angeles í eitt ár. „Pródúserarnir eru hér og allir listamennirnir. Þetta er staðurinn til að vera á ef maður ætlar að vera ungur í tónlist þó þetta sé svona langt frá Íslandi. Ég verð að viðurkenna að ég hef farið fjórum sinnum til Íslands á þessu ári sem er alveg óeðlilegt miðað við hvað þetta er langt í burtu.“

27. október kemur hún fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að koma fram á Iceland Airwaves.

Laufey kemur til Íslands í enn eitt skiptið í haust en fram undan er þriggja mánaða tónleikaferð um Bandaríkin og Evrópu en 27. október kemur hún fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að koma fram á Iceland Airwaves.

Hvernig er lífsstíllinn í LA?

„Þetta er eins og í kvikmynd. Ég verð að viðurkenna það. Sólin skín alltaf og ég bý nálægt ströndinni. Maður er alltaf að sjá eitthvað frægt fólk að labba um. Maður fer í þessi klikkuðu partí í þessum fallegum húsum og hittir skemmtilegt, skrýtið og alls konar fólk. Ég umgengst aðallega listamenn þannig að það er mjög skemmtilegt að vera alltaf í kringum fólk sem er að búa til tónlist eða kvikmyndir eða er ljósmyndarar. Þetta er alger draumur. En það er mjög erfitt að vera svona langt að heiman á svona ungum aldri. Ég bjóst ekki við því.“

Hvað ber að varast í þessum heimi?

„Ég held að maður verði að passa sig á að sökkva ekki of mikið inn í einhverja frægð. Það eru margir sem detta þá auðveldlega inn í slæma ávana. Ég reyni alltaf að muna hver ég er og hvað ég er að gera hérna. Það er mikilvægt að umkringja sig og vinna með góðu fólki.“

Allir uppáhaldstónlistarmennirnir mínir hafa spilað áður í Jimmy Kimmel.

Laufey flutti í janúar lag sitt Like the Movies í spjallþætti Jimmy Kimmel sem ku vera einn af vinsælustu spjallþáttunum vestanhafs. „Það var mikill heiður að fá að syngja í þessum þætti. Allir uppáhaldstónlistarmennirnir mínir hafa spilað áður í Jimmy Kimmel. Ég held að Íslendingar hafi í fyrsta skipti farið að taka eftir mér eftir að ég kom þar fram. Ég fékk að vita kvöldið áður að ég væri að fara að spila í þessum þætti af því að hljómsveitin sem átti að koma fram var með Covid þannig að umboðsmaðurinn minn sagði mér að ef þeir yrðu líka jákvæðir morguninn eftir þá myndi ég koma fram næsta morgun. Klukkan var orðin sex um kvöldið þegar hann hringdi í mig og sagði að ég ætti að fara heima og æfa mig. Þess vegna var ég ein og ekki með neina hljómsveit,“ segir Laufey sem spilaði á flygil á meðan hún söng þetta djassskotna lag sitt.

 

Maybe one day I’ll fall in a bookstore
Into the arms of a guy
We’ll sneak into bars
And gaze at the stars
Surrounded by fireflies

Oh, I’d like to sleep in ’til two on a Sunday
And listen to the bluebirds sigh
Get soaked in the rain
And smile through the pain
Slow dance under stormy skies

Maybe I’m just old-fashioned
Read too many fairytales
It’s no wonder I’ve had no luck
No one’s ever good enough
I want a love like I’ve seen in the movies
That’s why I’ll never fall in love

Oh, maybe I’m just old-fashioned
Read too many fairytales
It’s no wonder I’ve had no luck
No one’s ever good enough
I want a love like I’ve seen in the movies
That’s why I’ll never fall in love

Laufey Lin Jónsdóttir
(Mynd: Gemma Warren.)

 

Hringdi grátandi heim

23 ára og farin að vekja mikla athygli. Í 10. sæti á Spotify vestra. Þess má geta að í fyrra sá Laufey um tónlistarþátt á BBC Radio 3 þar sem hún lagði áherslu á sígilda tónlist, djasstónlist og popptónlist þar sem söngvarar eru í aðalhlutverkum.

Hverjir eru draumarnir? „Ég veit það ekki. Allt sem ég hefði sagt fyrir ári síðan er ég eiginlega búin að upplifa. Það væri geggjað að vinna Grammy-verðlaun einhvern tímann. Það er draumurinn. Eða vera bara tilnefnd. Svo langar mig til að semja kvikmyndatónlist. En annars langar mig til að halda áfram að kynna fólki fyrir djassi og klassískri tónlist og halda áfram að lifa lífinu og semja tónlist og texta um það.“

Þetta var frekar erfitt fyrir andlegu heilsuna.

Laufey er spurð hvaða lífsreynsla hafi mótað hana mest. Hún segir að það hafi verið frekar mikið áfall að flytja 19 ára gömul til Bandaríkjanna og yfirgefa fjölskylduna á Íslandi. „Ég er mjög náin fjölskyldunni minni og sérstaklega tvíburasystur minni. Þetta var frekar erfitt fyrir andlegu heilsuna. Það tók mikið á og mig langaði alltaf til að fara heim og hringdi grátandi í mömmu og pabba á hverjum einasta degi. Mér fannst ég ekki passa alveg inn í heiminn sem allir þessir amerísku krakkar voru í. Þannig að það var pínu erfitt. En ég lærði svo mikið af því og ef ég hefði ekki farið í gegnum það þá hefði ég ekki samið þessa tónlist. Og ef ég hefði ekki samið þessa tónlist þá væri ég ekki að gera það sem ég er að gera í dag. Þetta tengist allt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -