Skoðun eftir Elliða Vignisson
Hægrimennska rúmar ekki rasisma (kynþáttahyggju). Stefna okkar hægrimanna getur aldrei af neinum sannindum verið orðuð við slíkt. Það samræmist ekki afstöðu okkar að sjá kynþátt sem einkennandi fyrir einstakling. Við, þvert á móti, furðum okkur á því að einhverjum detti í hug að einlæg trú okkar á einstaklinginn og frelsi hans, einstaklingshyggjan, gæti tengst fordæmingu á forsendum kynþáttar.
Rasismi …
… rúmast ekki innan hugmyndafræði einstaklingshyggjunnar. Hún sér hvern einstakling sem sjálfstæða einingu með ríkan rétt til að ráða eigum sínum og gjörðum. Þennan rétt teljum við ekki léttvægan. Við teljum hann þvert á móti helgan rétt sem á rætur sínar í þeirri mannvirðingu sem allir eiga jafnan rétt á. Þann rétt getur enginn tekið og enginn framselt. Einstaklingshyggjufólk trúir því að samfélag manna virki best þegar unnið er að sameiginlegum markmiðum á forsendum frelsis hvers einstaklings. Að tilvera hópsins byggi á þörfum einstaklinganna en ekki öfugt.
Rasismi …
… er hluti af hóphyggju (collectivism) sem er andstæð einstaklingshyggjunni. Sú trú að hópurinn sé mikilvægari en einstaklingurinn. Að taka beri þarfir hópsins fram yfir þarfir einstaklingsins. Að veraldlegar eignir og jafnvel hugmyndir eigi að tilheyra hópi fremur en einstaklingum. Eitt af sterkari einkennum hóphyggjunnar er sú trú að heildin sé annað og æðra en summa eininganna. Að einstaklingurinn sé afurð hópsins en ekki öfugt. Að einkenni hópsins séu einkenni hvers einstaklings.
Rasismi …
… er eitt lægsta og viðbjóðslegasta form hóphyggju. Í honum er fólgið það viðhorf að einstakling beri ekki að meta eftir hans eigin getu, hegðun, eðli og persónueinkennum heldur eftir einhverjum óljósum uppsöfnuðum einkennum hópsins eða kynþættinum sem hann tilheyrir.
Rasismi …
… er fullkomið og algert brot á rétti einstaklingsins. Hann gengur þvert gegn mannvirðingu. Hann sviptir einstaklinginn þeim meðfædda rétti sem hann hefur sem einstaklingur og gerir hann að afurð kynþáttarins sem hann tilheyrir. Ekki eingöngu skerðir hann möguleika eins einstaklingsins til lífsgæða heldur eykur hann samhliða möguleika þeirra sem annars hafa ekkert til slíkra réttinda unnið um fram það að tilheyra forréttindahópi.
Rasismi …
… er eitur í beinum okkar sem aðhyllumst frelsi einstaklingsins. Við sjáum það sem baráttumál okkar að vinna að einstaklings- og atvinnufrelsi og því samræmist það ekki hugmyndafræði okkar að leggja dóm á einstaklinga úr frá því hvaða hópi þeir tilheyra. Við teljum að á forsendum frelsis einstaklingsins megi helst virkja sköpunargáfu og athafnaþrá hvers og eins og þannig að tryggja umhverfi sem einkennist af dugnaði og krafti. Rasismi hefur andstæð áhrif. Við trúum því af einlægni að einstaklingurinn sé best til þess fallinn að ráða eigum sínum, orðum og gjörðum óháð kyni, kynþætti eða hvers konar hópahyggju. Við teljum að með því að tryggja rétt einstaklingsins tryggjum við þau mannréttindi sem fólgin eru í jöfnum rétti allra.
Rasismi …
… fer því jafn vel með einstaklingshyggju okkar hægrimanna og smurolía og majónes. Það er ósamrýmanlegt.