Lögregla var kölluð út í Hlíðarnar rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Þar hafði kona dottið af rafskútu með þeim afleiðingum að framtönn brotnaði. Konan hlaut einnig áverka á andliti og var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Er hún grunuð um akstur undir áhrifum áfengis og voru því tekin blóðsýni til þess að ganga úr skugga um það.
Þá hafði lögregla í nógu að snúast við umferðareftirlit í gærkvöldi og í nótt. Fimm ökumenn voru stöðvaðir í miðbæ Reykjavíkur vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Kom í ljós að tveir þeirra höfðu ítrekað ekið undir áhrifum vímuefna og höfðu verið sviptir ökuréttindum. Einn ökumaður var stöðvaður í Kópavogi en sá var undir áhrifum fíkniefna.