Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir: „Ég lá bara og hlustaði á andardrátt þeirra“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir. Útvarpskona sem dregur ótrúlegustu hluti út úr viðmælendum sínum. Hún talar við Reyni Traustason meðal annars um hvernig hún haldi að það sé að vera útvarpsstjóri og hvers vegna hún vill ekki stimpla sig inn og út, hún segir frá æskuárunum þegar hún hlutaði á foreldra sína, útvarpsfólkið, tala um útvarp og þegar hún var hjá ömmu sinni og nöfnu og þær töluðu saman eða spiluðu á spil. Þá talar hún annars vegar um útvarpsþáttinn sinn og hins vegar sjónvarpsþáttinn sinn og hún talar um strið föður síns, útvarpsmanninn Jónas Jónasson, og síðustu nóttina í lífi hans. Það er líka minnst á hús andanna, spíritisma og líf eftir dauðann.

 

Hefur þig aldrei dreymt um að verða útvarpsstjóri?

„Nei, ég held að það sé sjúklega leiðinlegt að vera útvarpsstjóri. Þú þarft alltaf að vera að taka einhverjar leiðinlegar ákvarðanir,“ segir Sigurlaug Margrét Jónsdóttir fjölmiðlakona í viðtali við Reyni Traustason og minnist síðan á yfirmenn í útvarpi og sjónvarpi. „Vill maður ekki vera vinsæll? „Er ég ekki skemmtilega og hressa stelpan?“ Maður verður það ekki ef maður þarf að fara að taka erfiðar ákvarðanir. Það þarf alltaf að vera að gera það uppi í útvarpi. Það er alltaf eitthvað bölvað vesen. Ég vil bara fá að vinna í friði. Það er það sem ég vil. Mér líður alltaf vel þegar ég kem í vinnuna. Ég myndi segja að það væru brjálæðisleg forréttindi. Ég er alltaf spennt, ég hlakka til að byrja og þegar græna ljósið kemur og ég byrja að tala þá er það það skemmtilegasta sem ég geri.“

Sigurlaug Margrét segist vilja hafa menntamálaráðherra sem skilur mikilvægi þess að við höfum Ríkisútvarpið.

„Það eru rosalega margir sem eru á móti Ríkisútvarpinu. Ég forðast að fara í einhverja diskusjón; ég get það bara ekki. Ég læt mig bara hverfa,“ segir Sigurlaug Margrét sem er sonardóttir fyrsta útvarpsstjórans, Jónasar Þorbergssonar, og dóttir eins ástsælasta útvarpsmanns Íslendinga, Jónasar Jónassonar.

Mér finnst það vera mannréttindabrot.

- Auglýsing -

Sigurlaug Margrét vill ekki stimpla sig inn og út. „Mér finnst það vera mannréttindabrot. Ég sagði Stefáni útvarpsstjóra strax frá þessu til að hafa allt á hreinu. Hann bara hló að þessu. Pabbi gerði þetta ekki heldur. Hann varð jafnæstur og ég. Ég er í vinnunni allan daginn og svo fer ég eitthvert og er að finna fólk. Maður er endalaust að fá hugmyndir og finna fólk allan liðlangan daginn. Þannig að ef ég þarf að stimpla mig inn og út; það gengur ekki,“

 

Byrjaði 10 ára í útvarpinu

- Auglýsing -

Hún hefur unnið hjá Ríkisútvarpinu í mörg ár.

„Ég hefði kannski getað valið mér eitthvað annað. Ég pæli stundum í því. En það kom aldrei neitt annað til greina. Ég fann það á Skúlagötu 4 þar sem útvarpið var þegar ég var að alast upp. Það var stórkostlegt fólk að vinna þarna. Mestu leikarar þjóðarinnar komu og léku í stúdíóinu og ég hugsaði „þvílíkir galdrar“ og að ég ætlaði alltaf að vinna þarna. Bara alltaf. Ég ákvað það.“

Það var alltaf verið að tala um útvarp.

Sigurlaug Margrét segist hafa leikið í leikritum í útvarpinu væntanlega hjá pabba sínum þegar hún var 10 ára. Hún gerði síðan sína fyrstu útvarpsþætti þegar hún var 17-18 ára. „Þannig að ég byrjaði 10 ára í útvarpinu. Það var alltaf verið að tala um útvarp. Ég man eftir mér í Eskihlíð 10 og við bara þrjú – ég, pabbi og mamma – og þau voru bara að tala um útvarp. Og maður sat bara og hlustaði.“

Móðirin var Sigrún Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður.

Hún segist hafa lært fljótt að lesa. „Við bjuggu í Eskihlíð 10 og amma Silla (Sigurlaug Margrét) í Eskihlíð 8 og ég var þar mikið og las mjög mikið af bókum sem voru í bókaskápnum hennar.“

Draugasögur. Álfasögur. Hrakningar. Morð.

„Geggjað.“

Þær nöfnur spjölluðu saman. Spiluðu á spil.

„Svo eldaði hún alltaf í hádeginu. Pabbi kom oft í steiktan fisk með brúnni sósu og lauk. Pabbi og mamma voru bæði að vinna og ég í skólanum, Hlíðaskóla, þannig að ég fór svo alltaf til ömmu. Þar var mitt annað heimili. Hún eldaði hrísgrjónagraut og svo sátum við og töluðum. Og hlustuðum á útvarpið.“

Sigurlaug Margrét segir að óskalagaþættirnir hafi verið í uppáhaldi.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir

Ég segi líka frá sjálfri mér

Í dag stýrir Sigurlaug Margrét útvarpsþáttunum „Segðu mér“, sem hún hefur séð um í um níu ár, og svo sjónvarpsþáttunum „Okkar á milli“. Hún er spurð hvernig hún fari að því að laða fram það besta hjá viðmælendum.

„Ég hef stundum verið beðin um að halda fyrirlestur fyrir háskólanema sem eru að læra fjölmiðlun og ég fæ alltaf í magann af því að þá er sagt „viltu segja frá því hvaða tækni þú notar, hvað þú gerir og hvernig þú færð fólk til þess að tala?“. Ég bara veit það ekki. Ég get ekki útskýrt það nema kannski að ég hef óendanlegan áhuga á fólki. Og ef ég hef ekki áhuga á viðkomandi þá verður þetta ömurlegt viðtal.“

Þá kemur eitthvað sem viðkomandi ætlaði aldrei að tala um.

„Segðu mér“ er sendur út fjórum sinnum í viku. „Það getur stundum verið töff en það hafa allir sögu að segja. Það er alltaf hægt að finna eitthvað. Maður verður líka að undirbúa sig; það er grunnurinn. Ég verð að vita eitthvað. Þegar maður horfir á fólkið og þegir smá þá hugsar það „guð minn almáttugur, ætlar hún ekki að tala?“. Þá kemur eitthvað sem viðkomandi ætlaði aldrei að tala um. Og svo er ég „skömmuð“ þegar þátturinn er búinn og fólk segist ekki hafa ætlað að segja þetta eða tala um þetta.“

Sigurlaug Margrét segir að það þurfi að taka vel á móti fólki. „Ég sit alltaf með því í hálftíma áður en við byrjum. Ég er þá náttúrlega búin að tala við það áður í síma og stundum fer ég og hitti það. Svo sitjum við fyrir framan stúdíóið þar sem ég sendi þáttinn út og við spjölllum og fáum okkur kaffi. Ég segi líka frá sjálfri mér.“

Faðir Sigurlaugar Margrétar, Jónas, kveikti á kerti í viðtölum. „Ég er ekki eins skipulögð í handritagerð og hann. Handirtið hans var pottþétt. Ég er með kassa og ramma inn alls konar pælingar. Ég skrifa ekkert endilega margar spurningar en ég er með eitthvað sem viðkomandi hefur sagt við mig áður; þá skrifa ég það niður þannig að ég er alltaf með vísi að handriti.“

Sigurlaug Margrét segir að hollvinir Ríkisútvarpsins hafi skoðun á sér. „Það eru mjög margir sem þola mig ekki og það kom mér stórkostlega á óvart. Það eru nokkrir sem reyna að koma því alltaf að hvað ég sé búin að vinna þarna lengi; að þeir slökkvi um leið og ég byrja.“

Andlitið lýgur ekki; þú sérð hvernig fólki líður.

Svo er það sjónvarpsþátturinn „Okkar á milli“. „Þeir vildu kannski nýta þessa tækni mína, viðtalstækni. Það er aðeins öðruvísi auðvitað. Það er meira vesen. Ég get ekki verið með koddafar á kinninni. Maður þarf alltaf að pæla í einhverju svona og það tekur miklu meiri tíma. Lengri tíma. En þetta er samt ótrúlega gaman. Og ég er alltaf svo þakklát að fólk vill koma og koma fram í sjónvarpi. Andlitið lýgur ekki; þú sérð hvernig fólki líður.“

Það eru átök hjá sumum og sumir koma alls ekki.

„Nei, ég er ótrúlega glöð með þetta og ég finn að ég er á réttum stað.“

Og þættirnir halda áfram.

 

Söknuðurinn

Sigurlaug Margrét og eiginmaður hennar, Torfi, bjuggu ásamt börnum sínum í sama húsi og foreldrar hennar en húsið keypti þau saman.

„Við vorum alltaf saman sem þótti svolítið skrýtið. Ég var að vinna með þeim, við bjuggum saman og fórum í sumarfrí saman.“

Var það aldrei erfitt?

„Nei.“

Sigurlaug Margrét segir að faðir sinn hafi viljað vera í friði. „Hann var alltaf að tala við fólk en hann vildi helst vera í friði. Þegar hann var búinn að vinna þá kom hann heim, hann horfði á sjónvarpið, hann eldaði alltaf, en mamma eldaði eiginlega aldrei, og svo vildi hann bara horfa á sína þætti, fara kannski í bíó en vildi bara fá að vera í friði. Hann sagði stundum við mig en við vorum alltaf að halda einhver partí og fara eitthvað: „Hvernig nennir þú þessu, Silla?“.

Pabbi vildi heyra líkræðuna þannig að presturinn samdi hana og las fyrir pabba.

Svo veiktist Jónas Jónasson og háði sitt stríð.

„Það var svo ótrúlegt. Hann hjálpaði okkur svo mikið. Við töluðum um dauðann og við töluðum náttúrlega um jarðarförina svo sem að það ætti ekki syngja eitthvað ákveðið lag á undan öðru. Það var eins og við værum að tala um útvarpsþátt. Pabbi vildi heyra líkræðuna þannig að presturinn samdi hana og las fyrir pabba.“

Sigurlaug Margrét dvaldi á sjúkrastofu föður síns á líkndardeildinni síðustu nótt hans í þessu lífi auk þess sem móðir hennar var þar líka. „Ég lá í rúmi við hliðina á þeim uppi á líknardeild. Ég lá þarna og gat ekki sofið. Ég þurfti svo að fara í vinnuna um morguninn í morgunþátt Rásar 1 klukkan sex. Og ég lá bara og hlustaði á andardrátt þeirra. Og það var svo sterkt. Og ég hugsaði að ég væri að upplifa einhvern stórkostlegan hlut. Svo horfði ég á þau sofandi og læddist út. Pabbi dó svo um kvöldið.“

Sigurlaug Margrét segist sakna föður síns á hverjum degi. „Mér finnst ennþá eins og ég sé að fara að tala við hann uppi í útvarpi. Ég notaði hann svo oft til að spyrja að einhverju asnalegu; ef ég vissi ekki hvernig ég ætti að orða einhverjar setningar. Ef maður vildi ekki láta vita að maður var ekki öruggur með hlutina þá gat ég alltaf hringt í pabba. Það er þessi missir.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir

30 kíló af tómötum og spíritismi

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir segist vera frekar lífsglöð, jákvæð og yfirleitt vongóð. „Maður er að lenda í alls konar hlutum í lífinu og maður lendir í alls konar leiðindum en einhvern veginn tekst mér alltaf að sjá það bjarta. Ef mér líður eitthvað illa og það eru einhver vandamál sem þarf að leysa og það gengur eitthvað illa og ég hef kannski ekki stjórn á aðstæðum þá fer ég alltaf að þrífa. Og þá er ég ekki að ryksuga heldur tek alla gluggana. Þetta er svo sniðugt. Svo er maður búinn að taka alla gluggana og vandamálið er enn til staðar en þá hef ég stjórn á því að glugginn er að minnsta kosti hreinn. Ég tek kannski kryddskápinn eða bý til tómatsósu úr 30 kílóum af tómötum.“

Sigurlaug og maðurinn hennar, gullsmiðurinn Torfi, eiga þrjú börn; 32 ára son sem er í gullsmíðanámi, 27 ára dóttur sem er hjúkrunarfræðingur og aðra dóttur sem er 24 ára sem syngur.

„Ekkert af þeim hefur áhuga á útvarpi. Mér finnst það rosa skrýtið. Svo á ég barnabörn þannig að ég er að vona.“ Þau eru þrjú barnabörnin. Níu ára, tveggja ára og svo eitt nýkomið.

Útvarpskonan segist vera góð í ömmuhlutverkinu og að hún minni sig stundum á ömmu sína og nöfnu.

Svo dó hann tveimur mánuðum síðar.

Hún er að verða 59 ára. Bendir á að faðir sinn hafi verið í útvarpi þangað til hann varð áttræður. „Síðasta viðtalið sem hann tók var við RAX ljósmyndara og hann kom svo heim og sagði „mamma,“ en hann kallaði mömmu alltaf mömmu, „ég fer ekki aftur upp eftir“. Svo dó hann tveimur mánuðum síðar. Ég ætla ekki að vera alveg þar en ég sé fyrir mér að maður kannski hættir og verði svo eitthvað freelance.“

Sigurlaug Margrét trúir á líf eftir dauðann. Minnist á hús andanna og afann sem var spíritisti.

„Hann skrifaði margar bækur og það voru alltaf miðilsfundir. Hafsteinn miðill kom til þeirra og amma bakaði pönnukökur og svo voru endalausir miðilsfundir þannig að maður er alinn upp við þetta. Þetta er venjulegur hlutur. Ég pæli aldrei í því en ég efast ekki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -