Hér kemur uppskrift að æðislegum saltfiskur með smjörbaunum.
Saltfiskur með smjörbaunum
Fyrir 2-4
2 msk. ólífuolía
1 laukur, sneiddur
3-4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
1 dós smjörbaunir
2 dl grænmetissoð
1 dl hvítvín
1 msk. herbes de provence-kryddblanda
örlítið af chili-flögum
safi úr ½ sítrónu
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
u.þ.b. 100 g spínat, saxað gróft
500-600 g útvatnaður saltfiskur, skorinn í bita
1 dl svartar ólífur
fersk steinselja
Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn við vægan hita í allt að 15 mín. eða þar til hann karamelliserast. Bætið hvítlauk saman við og steikið í nokkrar mín. Skolið baunirnar vel og bætið út í ásamt soði, hvítvíni, kryddblöndu og chili-flögum.
Látið malla í 15-20 mín. bætið þá sítrónusafa saman við og merjið baunirnar gróft með gaffli. Bragðbætið með salti og pipar, gætið þess þó vel að salta ekki of mikið þar sem fiskurinn og ólífurnar eiga eftir að bætast við.
Ef baunamaukið er mjög þykkt er gott að bæta svolitlu soði eða hvítvíni saman við. Setjið spínat út í og búið til pláss fyrir fiskinn á pönnunni. Raðið fiskstykkjunum ofan í baunablönduna og dreifið ólífum yfir, setjið lok á pönnuna og látið malla í u.þ.b 10 mín. eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.
Stráið gjarnan ferskri steinselju yfir og berið fram með sítrónusneiðum.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir