Fimmtudagur 26. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Þykir framleiðsluvæn hönnun hallærisleg?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Siggu Heimis iðnhönnuð

Það ætlar að verða lífseig mýta að hönnun þurfi annaðhvort að vera listrænt, háfleygt og stórmerkilegt fyrirbæri eða hrá, iðnaðarleg fjöldaframleiðsla. Hér á landi þykir ekki hægt að blanda þessu saman þó svo frændur okkar í Danmörku og Svíþjóð geri það ljómandi vel.
Hönnunarnám hérlendis gengur alfarið út á að styðja fyrri tegund hönnunar þó svo að blessunarlega sé tækniumhverfið okkar að sækja í sig veðrið og hönnun tengd því að eflast. En betur má ef duga skal og er löngu kominn tími á hugarfarsbreytingu á kennsluskrá hjá okkar eina háskóla Íslendinga í hönnun, Listaháskóla Íslands.

Ég hef rekist harkalega á þetta í leit minni síðustu mánuði að íslenskum framleiðsluvænum minjagripum. Ferðamannaiðnaðurinn býður upp á fjölda atvinnutækifæra og kaupvilji ferðamanna er töluverður eins og Íslendingar þekkja vel. Sorglega lítið er um hugvit og þróun í þessum geira svo ég vildi skilja af hverju það væri. Ég komst að því að áhugi viðurkenndra hönnunarstofnana á söluvænni eða commerical-hönnun er enginn. Ef skoðuð eru þau verkefni sem hampað er erlendis sem íslenskri hönnun þá eru það einungis listræn, frekar óræðin verkefni sem eru kynnt. Þau verkefni eru oft og tíðum stök og gerð í mjög litlu upplagi.

Skoðum til dæmis fjölmiðlaumfjöllun um síðasta Hönnunarmars. Þar eru verkefni fremst á blaði sem vega salt á milli að vera list og hönnun. Sérstök verkefni með djúpan tilgang, sem oft vefst fyrir almennum áhorfanda og eru sömuleiðis oft torskilin. Enginn er að segja að slík verkefni hafi ekki rétt á sér en það er rangt að hampa einungis þannig verkefnum og sýna ekki einnig heiðarlega hversdagshluti hannaða af íslenskum hönnuðum. Dæmi um það er t.d. íslenskt matarsalt eða flothetta sem bæði tilheyra okkar mat og lífsstílskúltúr.

Það er mikilvægt að sýna breidd í umfjöllun og hönnun sem er líklega eitt það fag sem fer hvað víðast. Mikilvægi hönnunar fer vaxandi og hún er notuð í alls konar samhengi; sem aðferðarfræði og vinnutækni til beinharðrar vöruhönnunar.

Í september taka íslenskir hönnuðir þátt í samsýningu í London. Í kynningartexta sýningarinnar segir að markmiðið sé að sýna stöðu hönnunar í ólíkum löndum og það áhugaverðasta sem er að gerast á hverjum stað. Mér sýnist flestir íslensku þátttakenda vera með mjög listræna nálgun í sínum verkum og mér finnst vanta sárlega tenginguna við daglegt líf. Og ég neita að trúa því að þetta sé það áhugaverðasta sem Ísland býður upp á. Í sannleika sagt þá tengi ég margt af því sem þessir hönnuðir gera við hollenska hönnun frekar en íslenska. Og ég tel þetta vera lítinn hluta af því áhugaverðasta því það vantar mörg púsl í myndina til að sýna veruleika íslenskrar hönnunar.

- Auglýsing -

Við eigum endalausa uppsprettu af hugmyndum og nytjahlutum sem tengjast landinu okkar og menningu og það er kominn tími til að hvetja fólk til að tína til þær hugmyndir, nýta okkar frábæra hugvit og þróa. Það er löngu tímabært að sjá samhengi atvinnutækifæra og hönnunar og hætta að lofsyngja merkilegheitin í kringum listrænu hlið þessa frábæra fags.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -