Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, segir frá því í pistli í dag að hann hafi farið út á lífið með föður Andrew Tate, sem hefur verið nefndur hættulegasti maður internetsins. Tate hefur verið bannaður af nær öllum samfélagsmiðlum á síðustu vikum vegna viðhorfa sinna en Björn og föður hans hittust fyrir algjörri tilviljun.
„Það kom svolítið á mig þegar ég las fréttir erlendra og íslenskra miðla um að samfélagsmiðlastjarnan og milljarðamæringurinn Andrew Tate væri sagður „hættulegasti maður internetsins,“ skrifar Björn á DV.
„Hann er geysivinsæll á helstu samfélagsmiðlum, sérstaklega hjá ungum drengjum, en á veitunum úðar hann út ógeðfelldum skoðunum sínum sem einkennast af kvenhatri og fordómum. Stærstu samfélagsmiðlaveiturnar hafa ein af annarri lokað á Tate og því á eftir að koma í ljós í hvaða myrku afkimum internetsins hann mun ná að spúa eitri sínu næst. Ég hef blessunarlega aldrei hitt Andrew Tate en einhvern veginn finnst mér ég eins og ég þekki hann lítillega. Þetta er sagan af því þegar ég datt í það með föður „hættulegasta manns internetsins,“ bætir hann við.
Björn segist hafa hitt Emory Tate, föður Andrew, þegar hann tók þátt í skipuleggja alþjóðlegt skáksmómt, Reykjavík International árið 2007.
„Hann hafði samband og vildi endilega heimsækja Ísland og við ákváðum að bjóða honum yfir hafið til að taka þátt enda hafði ég oft lesið um kappann sem var hálfgerð rokkstjarna í bandaríska skáksamfélaginu. Hann var fluggáfaður vélbyssukjaftur, talaði fjölda tungumála, þar á meðal rússnesku, og hafði átt farsælan feril í bandaríska flughernum. Hann þótti tefla einstaklega skemmtilega og hafði lag á því að valta yfir sterka stórmeistara þó inn á milli gerðust slys gegn veikari skákmönnunum.
Hann virtist líka geisla af sjálfstrausti, sagðist aldrei æfa sig eða stúdera skák heldur settist bara niður og léti vaða. Leikurinn flókni væri honum í blóð borinn og hann var gjarn á að benda á að ef hann hefði haft þjálfarana og tækifærin til að helga sig skáklistinni þá væri hann einn af þeim allra bestu í heiminum. Ef maður hefði getað tappað sjálfstrausti Emory Tate á flöskur og selt þá væri maður vellauðugur.
Emory hafði heyrt lofræður um íslenskt næturlíf og því varð það úr, eitt föstudagskvöld á meðan á mótinu stóð, að ég heimsótti hann á hótelið hans í miðbænum til þess að sýna honum dýrðina. Hann bauð mér inn, reif síðan upp 1 lítra vodkaflösku og skenkti í tvö glös. Ég var byrjaður að skima um herbergið eftir einhverskonar íblöndun þegar Emory lyfti upp glasi og sagði: „We drink it like the Russians.
Emory Tate var fæddur árið 1958 og hafði greinilega orðið fyrir þeim áhrifum af Kalda stríðinu að Rússar væru upphaf og endir alls ills. Skáklistin var því að mörgu leyti nokkuð óheppileg íþrótt fyrir kappann enda hafa Rússar iðulega borið höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir á þeim vettvangi og á alþjóðlegum mótum er venjulega allt krökkt af ógnarsterkum Rússum. Hann sá því óvini á hverju horni á skákmótum,“ skrifar Björn.
Hér er hægt að lesa frásögn Björns í heild sinni á DV.