Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sjálfbært hagkerfi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Loftslagsbreytingar hafa stuðlað að því að mörg okkar eru farin að efast um uppbyggingu hagkerfisins.  Áður hef ég skrifað um nýtt hagvaxtarmódel, sem gengur út að horfa til annarra þátta en einungis á efnahagslegan vöxt –  heldur til félagslegra atriða og umhverfsins í formúlunni sem eru raunar þættir innbyggðir í sjálfbærnihugtakið í víðum skilningi. Umhverfisáhrif endalaus vaxtar hafa sýnt okkur svart á hvítu – að vöxtur er í sjálfu sér ekki alltaf góður. Lykilorðið sem við þurfum að færa inn í vaxtarhugtakið er að vöxtur sé aðeins í lagi ef hann er sjálfbær, sem þýðir að hann skaði ekki eða ógni tilvist vistkerfisins og jarðar sem og hagsmunum framtíðarkynslóða.  Sú hugsun er hins vegar ekki leiðarljós markaða og hagkerfsins í dag.

Frjáls markaður og kapítalismi er sú hugmyndafræði sem hin vestrænu samfélög eru byggð á í framkvæmd –  velferðarsamfélög Norðurlandanna í stórum dráttum jafnframt. Bandaríkin og Evrópusambandið eru frjáls markaðshagkerfi – þó að ESB sé byggt með öflugra eftirliti. Hugsunin er sú að neytendur eigi að veita virkt aðhald.  Grunnstefið eru hins vegar að einhverju leyti þarfir fjármagnsins og einkaframtakið. Neysla er forsenda þessa hagkerfis og samkeppni á að færa okkur besta verðið. Samneyslan er fjármögnuð að mestu með sköttum á laun, fremur en með gjöldum á auðlindir eða fjármagnssköttum.

Leysum við verkefnið í tengslum við hlýnun jarðar með því að breyta um hugmyndafræði frá frjálsu markaðshagkerfi? Það er stór spurning. Margir telja kapítalisma sökudólginn. Það er einföldun en að einhverju leyti rétt. Mitt svar er að líklegast erum við of sein –   að skipta um grundvallarhugmyndafræði í hagkerfinu – sennilega hefði þurft að gera fyrir cirka 30 árum síðan. Aðgerðir í loftslagsmálum þola enga bið. Í tenglsum við það verður markaðurinn hins vegar að fara taka alvöru ábyrgð ásamt stjórnvöldum. Hagkerfið þarf í heild sinni að verða sjálfbært. Raunar ætti ekki að taka neinar ákvarðanir meðal einkaframtaksins, eða stjórnvalda, sem ekki hefðu sjálfbærni leiðarljósi.  Í öllu falli þarf að halda jarðaför fyrir einnotahagkerfið – og það er með öllu óþolandi –  segi ég og skrifa að t.d. horfa upp á allan umbúðaflauminn sem hefur engan tilgang ennþá í flestum búðum landsins. Þetta á bara að vera búið.

Nýja, græna hagkerfið ætti ekki  að vera áfall fyrir markaðssinna samfélagsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa talið að nýtt grænt hagkerfi gæti skapað allt að 24 milljón starfa í heiminum á meðan aðeins um 6 milljónir myndu tapast – aðallega vegna þess að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt. Í raun og veru eru mjög mikil nýsköpunartækifæri í sjálfbæra samfélaginu þó að dregið verði verulega úr neyslu.

Þörf er á alvöru stefnumótun um grænt, sjálfbært hagkerfi. Í því sambandi væri einkum horft á græn fjárlög, styrkingu á grænni fjárfestingu og tilkomu regluverks, fjárfestingu hins opinbera í hringrásarhagkerfi og innviðum til styrkingar á því,  frekari stuðningur við innlenda framleiðslu og dregið úr innflutningi o.s.frv. Allt spurning um pólitíska framtíðarsýn, forgangsröðun og ákvarðanir. Á Íslandi ætti þetta að vera auðveldara en í flestum öðrum löndum,  vegna smæðar og vegna grænna orkuauðlinda.

Hvar ætlum við að staðsetja okkur? Ætlum við að vera kapítalískir neyslusóðar sem hugsa um ekkert nema sjálfan sig, eða gera það sem er rétt, og nýta markaðinn til að stefna skútunni í rétta sjálfbæra átt? Okkar er valið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -