Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Veggjöld eru óréttlátur skattur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun / Stefán Ólafsson

Nú virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nauðsynlegar vegaframkvæmdir með veggjöldum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það er í senn óréttlát og óhagkvæm leið til tekjuöflunar.
Veggjöld eru óréttlát vegna þess að þau leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk, sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi.
Veggjöld eru flöt krónutala sem er mun hærra hlutfall launa hjá 350 þúsund króna launamanni en hjá hálaunafólki, þar sem það er hverfandi.

Hálaunamenn (stjórnendur, atvinnurekendur og fjárfestar) aka oft á fyrirtækjabílum og þurfa þá ekki sjálfir að greiða slík gjöld.

Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði mun tapa ávinningi af ódýrara húsnæði þar með því að veggjöldin leggjast með miklum þunga á þau, þegar þau aka til vinnu á álagstíma (ekki síst ef gert er ráð fyrir hærri gjöldum á álagstímum).

Í lífskjarasamningunum 2019 var samið um 10 þúsund króna skattalækkun til lágtekjufólks. Veggjaldaálagning gæti falið í sér 20 til 40 þúsund króna kostnaðaraukningu á mánuði (skv. mati FÍB). Það tekur þá skattalækkunina til baka – og vel það. Slík niðurstaða hlyti að teljast gróf svik á lífskjarasamningnum, jafnvel hnífstunga í bakið!

Veggjaldaleiðin flytur í reynd byrðar af fjármögnun innviðaframkvæmda af hátekjufólki yfir á lægri og milli tekjuhópa.

- Auglýsing -

Veggjöld eru einnig óhagkvæmari tekjuöflun en notkun tekjuskattskerfisins. Þeim fylgir mikill stofnkostnaður eftirlits- og rukkunarkerfis, auk umtalsverðs rekstrarkostnaðar.
Fjármögnun í gegnum tekjuskattskerfið felur hins vegar ekki í sér neinn viðbótarkostnað.

Þannig væri bæði hagkvæmt og eðlilegt að fjármagna vegaumbætur með hækkun fjármagnstekjuskatts (sem er óvenju lágur hér á landi).

Þá eru ónefndir miklir tekjuöflunarmöguleikar ríkisins með hærri auðlindagjöldum, komugjöldum á ferðamenn (sem eru mjög fyrirferðamiklir á vegunum), auðlegðarskatti og loks með því að taka duglega á skattaundanskotum, sem nema um 100 milljörðum á ári hverju.

- Auglýsing -

Það er því engin þörf á að leggja á veggjöld innan höfuðborgarsvæðisins eða annars staðar.

Ástæða er líka til að vara stjórnvöld við þeirri leið, því hún verður afar óvinsæl.

Auk þess getur almenn álagning veggjalda leitt til uppsagnar lífskjarasamningsins strax á næsta ári, því hún myndi fela í sér umtalsverða kjaraskerðingu launafólks og svik á loforðum stjórnvalda um skattalækkun til lágtekjufólks.

Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -