Hrafn Jökulsson rithöfundur stendur í ströngu þessa dagana í baráttu sinni við krabbamein í hálsi. Hann berst fyrir opnum tjöldum við vágestinn, sem hann kallar Surtlu. Það er enginn bilbugur á kappanum sem á sama tíma er að herja á yfirstjórn Landspítalans vegna árásar sem hann varð fyrir inni á lokaðri deild. Þá hefur hann verið að sækja réttlæti vegna svonefndra vöggustofubarna sem sættu óboðlegri meðferð hjá Reykjavíkurborg. Hann er glaðbeittur og segir reglulega fréttir á Facebook af baráttu sinni við Surtlu.
Hrafn er þekktur fyrir baráttugleði sína og manngæsku. Þannig hefur hann á undanförnum áratugum glatt íbúa vítt og breitt um Grænland með því kenna skák og gefa börnum um gjörvallt landið töfl og annað sem tilheyrir skáklistinni. Loks hefur hann verið ötull í því að hreinsa fjörur landsins og bæta þannig fyrir sóðaskap fyrri kynslóða.