Leiðari úr 38. tölublaði Vikunnar
Fyrrum samstarfskona mín sagði mér eitt sinn að fyrrverandi maðurinn hennar hefði haldið fram hjá henni í mörg ár en það hafi eiginlega ekki verið framhjáhaldið sem stakk hana mest, heldur það að allir nánustu vinir þeirra hjóna hefðu vitað af því án þess að segja henni frá. Þessi orð hennar rifjuðust upp fyrir mér þar sem ég las viðtalið við Juliu Charlotte de Rossi sem prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni. Hún varð fyrir alvarlegri árás á Ítalíu af hendi fyrrverandi kærasta síns og Julia segist meðal annars vera rosalega reið yfir því að margt fólk sem hún þekkti vissi að hann hefði ráðist á fleiri konur.
Julia segist hafa margspurt sjálfa sig hvers vegna fólk hefði ekki sagt henni frá orðspori árásarmannsins og þeim sögum sem fóru af honum því það hefði hjálpað henni að vita meira. En ástæður fólks fyrir því að segja ekkert geta verið margar. Sumir þora kannski ekki að nefna hlutina, aðrir vilja ekki skipta sér af og enn aðrir vilja gefa mönnum annað tækifæri.
„Ekki skjóta sendiboðann,“ hafa sjálfsagt flestir heyrt og óttast það kannski að vera sendiboðinn sem er skotinn. En alltaf myndi ég frekar kjósa að vera sendiboðinn sem reyndi að koma skilaboðunum áleiðis, jafnvel þótt það þýddi vinamissi, heldur en að hafa það á samviskunni að hafa staðið hjá með einhverja svona vitneskju án þess að segja neitt.
Þessir ofbeldismenn eru oft sjarmerandi menn sem heilla konur, eða fólk, upp úr skónum og geta leikið sama leikinn aftur og aftur. Fara jafnvel frá einu fórnarlambi til annars og á meðan enginn segir neitt stoppar þetta enginn af.
Þótt árásarmaður Juliu gangi enn laus um götur Mílanó og nálgunarbannið sem hún er búin að sækja um hafi ekki enn tekið gildi, er hún ákveðin í að halda áfram lífi sínu þar sem frá var horfið. Hún er farin aftur til Mílanó og ætlar að klára háskólanámið. Og hún ætlar ekki að draga kæruna á hendur árásarmanninum til baka. Hún segist ekki geta látið hann ræna lífi sínu.
Þessi ótrúlega hugrakka, unga kona segir sögu sína í þeirri von að hjálpa öðrum að skilja að svona hegðun beri ekki vott um ást heldur stjórnunarþörf. Henni finnst mikilvægast að hann geti ekki haldið áfram að gera þetta við aðra. Hún þorir að segja frá; og það mættu fleiri gera. Skömmin er ekki þolandans. Skömmin er ekki sendiboðans. Skömmin er gerandans.