Mikil umræða hefur verið um tap hjá fagfjárfestasjóðum hjá sjóðafyrirtækinu Gamma Capital Management. Er þar um að ræða sjóðina Gamma Novus og Gamma Anglia en helsta eign þeirra er félagið Upphaf fasteignafélag. Er talið að íslenskir lífeyrissjóðir hafi tapað allt að þremur milljörðum króna vegna niðurfærslu á eignum umræddra sjóða.
Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrum viðskipta- og efnahagsráðherra taldi fjarðafok vegna þessarra fjárfestinga ástæðulaust. Staða íslenskra lífeyrissjóða væri mjög sterk.
Óhætt er að taka undir orð Gylfa. Má í því samhengi nefna að við bankahrunið í október 2008 námu eignir ísenskra lífeyrissjóða 1.660 milljörðum króna. Nú 11 árum seinna hafa eignir þeirra nærri þrefaldast og námu í ágúst á þessu ári nærri 4.800 milljörðum króna. Sé þetta þriggja milljarða króna tap sett í samhengi þá nemur það um 0,06% af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða. Það er eins og einstaklingur hafi tapað minna en 1 krónu á 1000 krónu seðlinum sem hann átti. Líklega myndu fæstir missa svefn vegna þess.
Þó verður að teljast ólíklegt að ekki eigi eftir að koma fleiri fréttir á næstu mánuðum af niðursveiflu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt hlýtur að vera óhjákvæmilegt eftir ævintýralega uppsveiflu á undanförnum árum. Staðan í íslensku efnahagslífi er hins vegar allt önnur en hún var fyrir rúmum áratug við bankahrunið. Þannig eru íslenskir lífeyrissjóðir enn lang stærstir á hlutabréfa, skuldabréfa og íbúðabréfamarkaði. Sterk staða þeirra gerir það að verkum að þeir eiga vel að geta tekið á sig einhverja niðursveiflu. Vonandi mun íslenskt efnahagslíf ná sér fljótt á strik aftur.