Leiðari úr 11. tölublaði Húsa og híbýla
Engum dylst að umhverfi getur haft gríðarleg áhrif á okkur hvort sem það er stofan heima, vinnustaðurinn eða tónleikasalur en gott rými getur magnað upplifun á tónlist svo um munar. Fyrir skemmstu fór ég á frábæra tónleika í Eldborgarsal Hörpu. Tónleikafélagi minn forfallaðist með litlum fyrirvara svo ég þurfti að finna nýjan og þegar ég var að reyna að lokka einhvern með mér stóð ég mig að því að selja hugmyndina um að tónleikarnir væru í Eldborgarsalnum.
Ég fann að það hafði mátt, enda töfrum líkast að sitja í rauðum salnum og dilla sér með á annað þúsund manns. Þess ber þó að geta að besta tónleikaupplifun mín hefur mörg hver verið í litlum sveittum kjöllurum og búllum svo stærðin skiptir ekki alltaf máli.
Þetta kvöld veitti ég því athygli að fáir tóku upp á snjallsímana sína til að senda á alla vinina sem sátu heima í stofu. Ég velti því fyrir mér hvort íslenska þjóðin hefði þroskast eða hvort tónleikagestirnir væru svona tillitssamir en tók svo eftir að meðalaldurinn var í hærri kantinum og ályktaði því að það hlyti að vera ástæðan en þá rifjuðust upp fyrir mér tónleikar með Mannakornum sem ég fór á með 19 ára dóttur minni í fyrra. Þar var meðalaldurinn einnig í hærra lagi og nokkurt vín hafði verið haft um hönd hjá sumum og því ríkti mikil gleði og stemning í salnum. Umhverfið var vel skreytt símum sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema þegar vín, gleði og gamalmenni koma saman með snjallsímann að vopni nýbúin að uppgötva sniðugt forrit, Snapchat, þá er voðinn vís.
Þegar lagið Reyndu aftur hófst ætlaði allt um koll að keyra og blikkandi skjáir margir hverjir með flassi tókust á loft, sumir misstu símann strax, aðrir notuðu báðar hendur til að þrýsta nógu fast á upptökutakkann og enn aðrir bösluðu við að snúa myndavélinni í símanum að sviðinu en ekki á sjálfan símaeigandann. En það skondnasta var á næsta leiti, því þegar sumir slepptu takkanum og fóru að skrifa einhver mjög mikilvæg skilaboð í miðju lagi þá láðist mörgum að lækka niður í hljóðinu svo að allt í einu var eins og brysti á með keðjusöng. Í einu horninu heyrðist „ég gekk minn breiða veg niður til heljar“ og annars staðar ómaði „yfir Esjuna og til tunglsins“ og á sviðinu söng Pálmi af öryggi „reyndu aftur, ég bæði sé og veit og skil“ og sagan endurtók sig í hverju lagi sem spilað var á tónleikunum.
Óhætt er að segja að glatt hafi verið á hjalla í Háskólabíói þetta kvöld og ég held að allir hafi bara skemmt sér mjög vel nema ég og dóttir mín, við skemmtum okkur ekki vel heldur stórkostlega. Því að þrátt fyrir að mikið ónæði hafi verið af símanotkuninni hjá eldra fólkinu þá var ekki annað hægt en að sjá kómísku hliðina á þessu öllu saman. Það gerðum við svo innilega að tónleikagestir voru farnir að líta við og hlæja með okkur án þess að vita að hverju við vorum að hlæja, og þá hlógum við náttúrlega enn meir, við bókstaflega veltumst um af hlátri. En að öllu gamni slepptu þá er það á allra vitorði að snjallsímanotkun er oft og tíðum of mikil. Fólk hangir í símanum í stofunni, í svefnherberginu, í eldhúsinu, á biðstofunni, í bílnum, á veitingastaðnum, í búðinni og á tónleikum en hvað með baðherbergið? Er það kannski eini staðurinn í húsinu sem er símalaus? Ég trúi því varla að símanotkun sé mikil þegar erindum náttúrunnar er sinnt og einhvern veginn er óhugsandi að síminn sé tekinn með í sturtu eða bað.
Þetta tölublað Húsa og híbýla er tileinkað símalausa svæðinu í húsinu, baðherberginu. Margir ættu því að geta fengið góðar, ferskar og fjölbreyttar hugmyndir til að lífga upp á þetta mikilvæga rými sem er að margra mati oft besti tónleikasalurinn í húsinu. Þá er ekkert annað eftir en að skella sér í sturtu og syngja … Reyndu aftur.
Sjá einnig: Fjölbreytt innlit og fróðleikur í nýju og fersku Hús og híbýli