Eftir að frétt Mannlífs í gær um að séra Gunnari Björnssyni hefði verið bannað að sjá um útför í Hveragerði fór í loftið, sendi blaðamaður Mannlífs einfalda fyrirspurn til Biskupsstofu, nánar tiltekið á biskupsritara, Pétur Georg Markan, samskiptastjóra Biskupsstofu.
Fyrirspurnin var svohljóðandi:
Komdu sæll og blessaður Pétur, og afsakaðu ónæðið. Svanur Már Snorrason heiti ég og er blaðamaður á Mannlífi. Ég er með fyrirspurn. Þegar prestar komast á „aldur“ – 67 til 70 ára, mega þeir samt sem áður sjá um til dæmis brúðkaup, skírnir og jarðarfarir? Eða hætta þeir einfaldlega allri þjónustu á vegum Kirkjunnar eftir að eftirlaunaaldri er náð?
Með kærri kveðju og von um góð viðbrögð, Svanur
Í dag var svo fyrirspurnin ítrekuð, enda ekkert svar borist frá Pétri eða öðrum á Biskupsstofu við þessari einföldu fyrirspurn. Enn hefur ekkert svar borist hver svo sem ástæðan er.
Í áðurnefndri frétt Mannlífs um mál séra Gunnars kom fram að hann væri ekki velkominn til þjónustu í Hveragerði, en það sagði Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir.
Sonur konunnar sem var jarðsungin var ekki par sáttur við svarið frá Sr. Ninnu, og hafði samband við biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, þann 29 ágúst síðastliðinn.
Erindi hans var svohljóðandi:
„Heil og sæl frú Agnes. Freista þess að leita ásjár hjá þér í smá vandræðum. Móðir mín lést í vikunni sem leið og við fjölskyldan ræddum við hina öldnu kempu, séra Gunnar Björnsson, um að syngja yfir henni. Hann tók því vel. Systir mín gekk í að fá inni í kirkjunni í Hveragerði komandi mánudag og var í sambandi við prestinn í Hveragerðiskirkju. Guðmundur Jón Sigurðsson. Það komu smáskilaboð frá séra Ninnu Sif um að Gunnar væri ekki leyfður í kirkjunni, það væri ákvörðun Þjóðkirkjunnar. Nú þykist ég vita að um einhvern misskilning sé að ræða sem auðvelt ætti að vera að greiða úr. Því leita ég liðsinnis hjá þér með þetta mál. Gunnar varð vinur okkar fjölskyldunnar þegar við öll bjuggum vestur í Önundarfirði. Hann hefur sinnt foreldrum mínum í veikindum móður minnar nú í sumar, auk þess sem samband hefur verið eftir þau settust öll að á Suðurlandinu.“
Ekkert svar barst frá biskupi; en Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, sem er yfirmaður fasteignasviðs Þjóðkirkjunnar, svaraði erindinu 9 dögum síðar; tveimur dögum eftir að jarðarförin fór fram.
Þetta var svar Brynju:
„Ég bið þig innilega að afsaka hve seint ég svara erindi þínu og votta þér samúð mína. Því miður er séra Gunnar ekki lengur í þjónustu svo ekki er hægt að verða við beiðni þinni. Ég vona að þið finnið annan prest í prestakallinu sem reynist ykkur vel.“
Fjölskylda konunnar sem var jarðsungin í Hveragerði er í sárum eftir þessa framkomu fulltrúa Þjóðkirkjunnar. Hefur fjölskyldan nú þegar sent Biskupsstofu bréf þar sem þess er krafist að Agnes biskup og/eða hennar meðreiðarsveinar svari því skýrt og skorinort hvers vegna séra Gunnar fékk ekki að jarðsyngja konuna.
Mannlíf mun halda áfram að fjalla um málið.