Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, virðist hafa fengið sig fullsaddan af verðlaginu í Leiðsstöð. Í leiðara blaðsins í dag bölvar hann okrinu í Fríhöfninni í sand og ösku. Hann segir það bæta gráu ofan á svart að okurkaupmaðurinn sé íslenska ríkið.
„Það er eftir öðru á Íslandi að sjálft ríkisvaldið fari á undan með vondu fordæmi og okri svo á landsmönnum í opinberum verslunum að líkja verður við argasta arðrán.Í fréttum blaðsins á síðustu dögum hefur verið fjallað um gegndarlausa álagningu Fríhafnarinnar í Leifsstöð á nokkrum algengum tegundum sem fást jöfnum höndum á Keflavíkurflugvelli og í lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu og leiðir nýleg verðkönnun í ljós að ríkisverslunin leggur í öllum tilvikum meira á vörur sínar, enda þótt hún þurfi ekki að standa skil á 24,5 prósenta virðisaukaskatti sem einkareknar verslanir fá ekki umflúið,“ segir Sigmundur.
„Þetta er svívirða. Og heitir ekki annað en skattsvik. Ríkið stelur niðurfellingu álaganna af almenningi og stingur í eigin vasa. Og sama alþýða manna gengur í góðri trú inn í þessa einokunarverslun yfirvaldsins og telur sig geta gert þar betri kaup en í bænum, enda búðin merkt á kant og kima með þeim hætti, en hefði betur verslað heima hjá þeim sem borga þó skattinn sinn.“
Sigmundur segir þessa álagningu óverjanlega. „Auðvitað er það rétt hjá formanni Neytendasamtakanna sem sagði í fréttaflutningi af málinu að þessi gífurlega álagning af hálfu hins opinbera væri algerlega út úr korti. Og er nema von að maðurinn segi það. Dæmi eru um vinsælar sælgætisvörur sem eru fimmtíu prósentum dýrari í Leifsstöð en í Bónus, Krónunni eða Costco í bænum. Álagningin er því í rauninni jafnt yfirgengileg og hún er ófyrirleitin. Og enn ein gildran sem neytendur á Íslandi þurfa að gæta sín á að falla ekki ofan í, eins og formaður Neytendasamtakanna benti enn fremur á í umræddri frétt,“ segir Sigmundur.
Íslendingar verði að hætta meðvirkni með þessu okri. „Verðlag á Íslandi er hátt. Það er óhemjuhátt miðað við það sem gengur og gerist víða í Evrópu. Munar þar miklu um veikan gjaldmiðil sem fæst ekki að láni nema á breytilegum vöxtum sem engir þekkja til nema Íslendingar. Og háa verðlagið verður væntanlega líka rakið til skorts á samkeppni ásamt langvarandi meðvirkni landsmanna í þá veru að það sé bara allt í lagi að bíta á jaxlinn í þessum efnum.
En ríkið á ekki að kynda þetta bál. Það á ekki að kynda nokkurt bál til að belgja verðið út. En ríkið gerir það samt. Og ekki bara í Leifsstöð eins og dæmin sanna, heldur í látlausri launaþenslu og uppkaupum á sérfræðingum hjá einkafyrirtækjum – á meðan það biður aðra um hófsemd.“