Facebook er landamæralaust fyrirtæki notað í öllum löndum heims – fyrir utan einhverjar takmarkanir í Kína og Íran að ógleymdu Norður Kóreu þar sem netið er bannað. Notendur eru yfir 2.4 billjónir á heimsvísu sem þýðir að Facebook er stærsti samfélagsmiðlinn og ef Facebook væri land væri það stærra en Kína. Því er auðvelt að sjá hversu mikilvægur auglýsingarmarkaður miðilsins er. Einn tæknivinur sagði eitt sinn við mig – þegar ég var að vandræðast með að setja upp heimasíðu í prófkjöri – að Facebook væri í raun nýja internetið. Sú setning hefur lengi setið í mér m.a. vegna þess að Facebook er einkafyrirtæki á markaði og hagar sér sem slíkt – en ekki samfélagsleg stofnun.
Nokkur mál hafa komið upp að undanförnu sem vekja upp stórar siðferðislegar spurningar um reksturinn. Frægast er Cambridge Analytica málið, þar sem ráðgjafafyrirtæki sem vann fyrir Trump komst í hrágögn um 87 milljónir notenda Facebook, án þess að nokkur vissi í gegnum forrit þriðja aðila. Þá skrifaði ég pistil um daginn um símahleranir í auglýsingatilgangi. Fyrir nokkrum dögum kom svo í ljós að ef bandarískir þingmenn setja rangar fréttir á Facebook, sumsé dreifa lygi – t.d. að repúblikanar séu með græna sáttmálanum – er ekkert sem yfirmenn fyrirtækisins geta gert eða gera. Líklega ekkert var reyndar svar Mark Zuckerberger forstjóra Facebook þegar spurningin var borin upp af þingkonunni Alexandriu Ocasio Cortez.
Téður Zuckerberger hélt ræðu um daginn í Oxford háskóla og sagði m.a. að fólk verði sjálft að bera ábyrgð á því efni sem það birtir, en ekki eigi að færa ábyrgðina yfir á Facebook eða önnur tæknifyrirtæki að fara yfir staðreyndir á birtu efni.
Já, þessi ræða hringir kunnuglegum bjöllum. Ég meina kommon: „Látum markaðinn um þetta“. Treystum fólki sjálfu að sía hismið frá kjarnanum – hér sannleikann. En spurningin er hvort þriðji aðili beri enga ábyrgð gagnvart sannleikanum? Ef ég sel aðgang að einkasíðunni minni þar sem birt eru ósannindi get ég þá bara sagt: „það er ekki mitt að vera fara yfir staðreyndir, það er á ábyrð lesenda að ákveða hverju þeir trúa“. Ef ég býð öfgahóp nýnasista að vera með opinn fund heima hjá mér gegn greiðslu ber ég þá enga ábyrgð á þeim boðskap sem þar er breiddur út? Hljómar það ekki eitthvað rangt – eins og skítbuxnaviðhorf.
Þetta er þó ekkert einfalt eins og almennt þegar tjáningarfrelsið er undir. Það er snúið að finna mörkin. Það er eitt að vera með eigin færslur á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter og bulla þar rugl – væntanlega að virtum ærumeiðingarreglum hér í landi – en það er annað þegar þú ert hreinlega farinn að hafa hluti að atvinnu. Þá hlýtur að skipta máli hvort þú ert að dreifa lygum og þiggja greiðslu fyrir. T.d. ef dreifingaraðilinn veit hreinlega að um ósannindi er að ræða ber hann enga ábyrgð á að hafa slíkar upplýsingar í dreifingu? Samkvæmt Zuckerberger er svarið – líklega ekki. Þessi þróun er varhugaverð vegna þess að hún ýtir undir ábyrgðarleysisamfélagið. Allt má – en enginn ber ábyrgð. En ógnar það í sjálfu sér lýðræðinu? Svarið mitt er já. Ef kosningarétturinn er grundvallarforsenda í lýðræðissamfélagi hlýtur að vera skylda hins opinbera að verja hann a.m.k. kjósendur fyrir dreifingu á lygi og bulli að því marki sem við verður komið – en ekki að það sé ekki samfélagslega samþykkt að dreifa ósannindum og áróðri á frjálsu markaðstorgi. Það heitir á góðri ensku: „manipulation“. Stjórnmálamenn sem þykja vænt um lýðræðið geta ekki yppt öxlum og leyft Mark Zuckerberger að ákveða leikreglur samfélagsins.
Hér skiptir jafnframt máli að Facebook er ekki bara stærsta landið heldur sennilega eitt stærsta gagnasafn heims af persónuupplýsingum. Það er enda aðalsöluvara fyrirtækisins, gögn – sem eru það verðmætasta sem til er á 21. öldinni. Facebook nær í allskonar gögn um okkar hegðun með sínum eftirlitskapítalisma á fremur óljósan hátt – raunsannur stóri bróðir sem fylgist með öllu. Nóg er að haka við einhverja 50 síðna skilmála sem engin les til að nota forrit sem svo ná í upplýsingar um okkar nethegðun. Síðan skipar Facebook okkur á bása í bergmálsklefa eins og þær reglulegu kýr sem við erum, sýnir okkur ákveðna hluta umræðunnar en ekki raunverulegt litróf hennar á sama hátt og það otar að okkur vörum. Vissulega er okkur frjálst að vera á facebook, en þegar facebook er orðið sjálft internetið og við orðin háð því um flesta hluti er það hægara sagt en gert að tékka sig út.
Að mörgu leyti er ég sátt við að sjá ekki umræðuna frá þjóðernissinnuðum rasistum en hins vegar er fjölbreytni merki heilbrigðrar og raunverulegrar lýðræðisumræðu. Forsenda lýðræðisins er að kjósendur hafi ákveðið umboð en séu ekki misnotaðir af áróðursvélum og fái að sjá raunveruleikann og allan hluta markaðstorgins en ekki að hluta hans sé sópað undir teppi af algórytmum áhugans. Tæknirisar mega ekki vera í einokunarstöðu við notkun á gögnum sem þeir selja hvert sem er – og bera svo enga ábyrgð á því valdi. Það er ekki nóg að vona bara að Mark Zuckerberger sé nú ágætur náungi. Þó Facebook sé sannarlega hipp og kúl, er það orðið meira eins og nýaldar villta vestrið. Það ógnar lýðræðinu – öllu heldur það leikreglnaleysi sem virðist þar ríkja sem grefur undan því að ákveðin undirstöðugildi samfélagsins séu virt og vernduð.