Lögregla mætti á heimili á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi þar sem grunur lék á að fíkniefnasala færi þar fram. Þegar lögregla kom á vettvang rakst hún á skriðdýr sem óheimilt er að eiga á Íslandi. Ekki kemur fram hvers konar dýr var á staðnum en var það handsamað og fjarlægt af starfsmanni frá sveitafélagi.
Þá var lögregla kölluð út vegna karlmanns sem lét illa bænum. Hafði hann tekið upp á því að berja í mannlausar bifreiðar á bílastæði og olli tjóni á þeim. Þegar lögregla mætti á vettvang var skemmdarvargurinn hvergi sjáanlelgur. Brotist var inn í apótek undir morgun. Aðilinn komst undan en ekki er vitað hversu mikið af lyfjum hann hafði á brott með sér.
Fyrr um kvöldið þurfi lögregla að hafa afskipti af manni í Kópavogi. Segir í dagbók lögreglu að hann hafi hegðað sér ósæmilega á almannafæri. Þegar lögreglan ræddi við manninn neitaði hann að gefa upp persónuupplýsingar og var hann því handtekinn. Þegar komið var niður á lögreglustöð hafði hann skipt um skoðun og gaf upp þær upplýsingar sem lögregla óskaði eftir. Manninum var sleppt að því loknu.