Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri, segir Sjálfstæðisflokkinn hata Reykvíkinga og að flokkurinn komi ekki til með að fyrirgefa borgarbúum. Hann segir hatrinu fylgja viss óþægindi fyrir þá sem búa í borginni.
Gunnar Smári lýsir þessu yfir á spjallsvæði sósíalista á Facebook og er tilefni skrifanna sú ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að embætti Sýslumanns Íslands verði staðsett á Húsavík. Þetta hefur Gunnar um málið að segja:
„Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur Reykvíkingum ekki að hafa hafnað flokknum og útilokað frá stjórn borgarinnar. Tryggingastofnun er komin í Kópavoginn, sýslumaðurinn líka, Hafró til Hafnarfjarðar o.s.frv. Þessu fylgja viss óþægindi fyrir okkur sem flokkurinn hatar,“ segir Gunnar Smári og heldur áfram:
„Fyrst þurftum við að fara með nesti í Kópavoginn til að sækja vottorð hjá sýslumanni, sem lét okkur bíða í þrjá tíma í biðröð (hvar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður eru biðraðir). Nú þurfum við að taka tjald með okkur til sýslumanns á Húsavík ef við þurfum að þinglýsa leigusamningi.“