Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Lærdómur af Samherjamálinu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Henry Alexander, heimspekingur

Ég þurfti að mæta óvenju snemma á fund síðastliðinn fimmtudag og var búinn að fá mér morgunmat og lesa í gegnum blöðin þegar Morgunútvarp Rásar 2 fór í loftið. Sigmar og Hulda byrjuðu á að fletta í gegnum blöðin og ég ákvað að doka við og heyra hvað þau hefðu að segja. Hulda hafði eftir mér nokkur orð sem ég hafði látið falla í samtali við Fréttablaðið daginn áður um Samherjamálið, meðal annars að ég væri hræddur um að við myndum draga lítinn lærdóm af þessu máli. Sigmar virtist fremur óhress með þessi ummæli mín og virtist óttast að svona orðræða væri bara til þess fallin að dreifa ábyrgðinni of víða.

Mér finnst ég eiginlega skulda Sigmari örlitla útskýringu á því hvað ég átti við með þessum orðum mínum. Ég held að það hafi verið hárrétt hjá honum að staldra við þessi orð og hvetja til þess að við fetuðum varlega í þessa átt. Það er örugglega laukrétt að við megum alls ekki láta eins og allir borgarar landsins eigi að draga lærdóm af málinu. En á sama tíma berum við öll ábyrgð á anga þess. Og sá angi snertir einmitt flest þau hneykslismál sem komið hafa upp á Íslandi undanfarin áratug og ég hef látið hafa eitthvað eftir mér um.

Ólíkt mörgum kollegum mínum held ég ekki að það sé neitt siðferðilega rangt við kapítalisma. Ég fæ ekki séð að hagnaður fyrirtækja geti einungis komið til við það að vinna öðrum skaða. En það er eins ljóst að margt þarf að ganga upp svo gagnrýniraddir um að allur gróði sé siðferðilega ámælisverður hafi ekki nokkuð til síns máls. Margir telja nefnilega að peningar séu eins og vatn. Það sem sé stöðugt á hreyfingu leiti alltaf þangað sem viðnám sé minnst. Almenningur þekkir það hvernig peningar stoppa stutt í seðlaveskjum þeirra en athafnamenn sjá hina hliðina og leitast við að auka við fjármagnið og láta peningana vinna fyrir sér. Hafa þá stöðugt á hreyfingu og leita sífellt nýrra tækifæra. Og þá hefur reynslan kennt okkur að það getur borgað sig fyrir samfélagið að veita viðnám og gera sitt besta til að láta þær varnir halda.

Vestræn samfélög hafa komið sér upp skipulegu kerfi sem á að veita hagnaðardrifnum rekstri þetta viðnám. Fyrirtækin beri siðferðilegar skyldur til samfélagsins í ljósi þess að þau fá margs konar réttindi í sambandi við reksturinn. Ein helsta uppspretta slíkra siðferðilegra skyldna er réttur til að bera takmarkaða ábyrgð með hlutafélagaforminu. Við erum flest sammála því að ef leyfa á slíkt rekstrarform sé eins gott að koma upp flóknu kerfi laga og reglna sem eiga sér grundvöll í einföldum siðferðilegum frumforsendum um gagnsæi og ráðvendi.

Til viðbótar við sértök lög og reglur um einstök rekstrarform er hugmyndin sú að samfélög byggi á aðskilnaði ólíkra sviða. Innan hvers sviðs má svo finna mismunandi hlutverk sem hverju um sig fylgja sérstakar siðferðilegar skyldur. Ein mikilvægasta aðgreiningin er milli sviðs stjórnmála og viðskiptalífs. Þessi svið mega ekki blandast og það á að vera kappsmál að þeir sem gegna mikilvægum hlutverkum innan hvers sviðs gæti að hlutverkabundnum skyldum sínum. Þetta kann að virka óþolandi leiðinlegt og íþyngjandi en kerfið gengur ekki upp nema fólk virði þessi mörk.

- Auglýsing -

Væntanlega á margt eftir að koma í ljós varðandi Samherjamálið. En eins og það blasir við í dag snýst það annars vegar um að menn hafi viljandi reynt að má út eðlileg mörk stjórnmála og viðskiptalífs í landi þar sem við vitum að varnir eru veikar. Og á hinn bóginn snýst það um að þessi hegðun hefur sett kastljósið á hinn íslenska veruleika og þannig skaðað trúverðugleika einnar af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Það er til dæmis ekki hægt að láta eins og það séu óeðlilegar kröfur til þess ráðherra sem sér um sjávarútvegsmál að hann hefði átt að huga að ásýnd þess að taka að sér hlutverkið í ljósi stöðu sinnar og forsögu.

Lærdómurinn sem við þurfum að draga er í raun einfaldur. Við getum aldrei komið í veg fyrir að fólk með einbeittan brotavilja fremji afbrot. Efnahagsbrot eru þar engin undantekning. Og þeir einstaklingar sem gerast sekir um slíkt bera einir ábyrgð. Við sem samfélag berum hins vegar sameiginlega ábyrgð á stærri myndinni. Okkur ber að sjá til þess að í samfélaginu fari fram stöðug og öflug umræða um hvernig ólík svið samfélagsins megi ekki skarast og hvernig einstaklingar innan hvers sviðs verða að virða skyldur sínar.

Þetta er lærdómurinn sem hefði mátt draga af þeim fjölmörgu hneykslismálum í íslensku samfélagi sem ég hef kommentað á undanfarinn áratug. Í hvert sinn hafa hins vegar þær raddir náð yfirhöndinni sem segja að ekki megi gera of miklar kröfur til kjörinna fulltrúa. Að á litla Íslandi sé ekki hjá því komist að náin tengsl séu milli fólks. Og svo framvegis. Staðreyndin er hins vegar sú að þau sem taka að sér stór og mikilvæg hlutverk í samfélaginu geta þurft að færa fórnir eða þá segja sig frá hlutverkum. Hlutverkin sem þau gegna geta jafnvel í siðferðilegu tilliti takmarkað athafnafrelsi náinna vina og fjölskyldu.

- Auglýsing -

Markaðshagkerfi þarf ekki að ógna lýðræði ef fólk er tilbúið að lúta nauðsynlegum takmörkunum sem fylgja eðli hlutverka og starfsemi. Það er frekja fólks um að þessar takmarkanir eigi ekki við sig sem setur allt úr skorðum. Ábyrgð okkar allra felst í að mynda og viðhalda sameiginlegum skilningi á þessu kerfi. Næst þegar kjörinn fulltrúi talar um sig eins og launþega. Næst þegar kjörinn fulltrúi lýsir því yfir að verkefni fjölskyldumeðlima og vina hafi ekki áhrif á trúverðugleika hans. Næst þegar athafnafólk lætur eins og samfélaginu komi ekki við hvernig það hagar rekstri sínum. Næst þegar hin nauðsynlega aðgreining ólíkra sviða samfélagsins heldur ekki, þá þurfum við sameiginlega að stuðla að ríkari skilning á mikilvægi þess að allir skilji og virði þessa aðgreiningu.

Þetta kallar ekki á byltingu. Þetta kallar ekki á umbyltingu á hinu frjálslynda lýðræðisfyrirkomulagi. Við þurfum bara að hafa trú á því sem við erum að gera.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -