Lögregla þurfti ítrekað að hafa afskipti af sama manninum í gær sökum annarlegs ástands. Fyrstu afskipti lögreglu voru fyrir hádegið eftir að aðilinn reyndi að komast inn í hús þangað sem hann átti ekki erindi. Íbúar höfðu samband við lögreglu sem vísaði manninum í burtu. Þrátt fyrir fyrirmæli lögreglu kom maðurinn alltaf aftur og endaði það með því að lögregla neyddist til þess að handtaka hann fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Maðurinn gisti í fangaklefa lögreglu þar sem hann sefur úr sér vímuna ogsvarar til saka þegar ástand hans leyfir.
Síðar um nóttina var lögregla kölluð út á hótel eftir að maður hafði veist að starfsmanni. Kom í ljós að maðurinn var í annarlegu ástandi en auk þess hafði hann töluvert magn fíkniefna og peninga í fórum sínum. Maðurinn var látinn gista í fangaklefa.
Fyrr um kvöldið höfðu lögreglumenn sinnt reglubundnu eftirliti í Kópavogi er þeir fundu kannabislykt. Þá segir í dagbók lögreglu að eftir nokkra rannsóknarvinnu fundu laganna verðir kannabisræktun í íbúð skammt frá. Einn aðili er grunaður og náði lögregla að ræða við hann. Skömmu áður var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ekið hafði verið á ungmenni á rafskútu. Hafði unglingurinn verið á leiðinni yfir gangbraut þegar ekið var á hann. Hlaut hann minniháttar meiðsli og fór í fylgd með fjölskyldu sinni á bráðamóttöku.