Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.4 C
Reykjavik

Sorgin fer ekki í jólafrí

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 46. tölublaði Mannlífs

Jólin eru hátíð gleðinnar. Þá eiga allir að vera glaðir og til í hopp og hí um borg og bý, enginn má vera leiður eða leiðinlegur, brosið jafnmikilvægt og jólasteikin – hvort sem hún nú er úr jurta- eða dýraríkinu. Helst á allt að vera fullkomið svo hægt sé að pósta endalausum myndum af glæsilegum borðskreytingum og mat á samfélagsmiðlum, svo ekki sé nú minnst á gluggaskreytingar og jólatré sem skreytt eru eftir hátísku þess árs. Og ekki má gleyma áherslunni á umhverfisvæn jól. Gjafirnar verða helst að vera pakkaðar inn í brúnan, endurvinnanlegan umbúðapappír og lokað með krosslögðu snæri ef hægt á að vera að taka mark á gefandanum sem meðvitaðri, upplýstri manneskju. En er það í rauninni þetta sem jólin snúast um?

Í þessari kröfu um gleði og fullkomnun vill oft gleymast að fyrir marga eru jólin erfiðasti tími ársins. Þeir sem misst hafa ástvini, hvað þá börnin sín, syrgja aldrei heitar en um jólin sem eru þeirri náttúru gædd að fá fólk til að rifja upp gamla tíma sem fyrrnefndir ástvinir tóku þátt í og finna enn sárar fyrir missi þeirra en dagsdaglega. Fæstir fá þó að sinna sorginni í friði, það vill enginn neitt væl um jólin. Vera hress, brosa, láta eins og allt sé í himnalagi er krafa samfélagsins og aldrei er sú krafa háværari en um jólin. Það er stundum eins og fólk haldi að því háværari sem gleðikrafan er því minni hætta sé á að fólk finni fyrir sorginni.

Þessi krafa er hættuleg, eins og fjölmargir sérfræðingar hafa bent á, og sýnir ótrúlega lítinn skilning á því langa og dökka ferli sem sorgin er. Í forsíðuviðtali Mannlífs í dag segir Tobba Marinós frá því að fljótlega eftir að systir hennar varð bráðkvödd hafi fólk verið farið að spyrja hvort foreldrar hennar væru ekki „að koma til“, eins og þau hefðu bara fengið lítilsháttar flensu sem hægt væri að hrista af sér á mettíma. Fólk sem spyr slíkrar spurningar virðist annaðhvort óttast sorg annarra eða ekki gera sér grein fyrir því hversu djúpt hún ristir. Það hristir enginn af sér barnsmissi eða systkinamissi. Sú sorg fylgir fólki ævina á enda og þótt hún sé léttbærari suma daga en aðra koma tímar þar sem hún er þung og dökk og alltumlykjandi. Það er hluti af sorgarferlinu. Og það minnsta sem við hin getum gert er að sýna því skilning og virðingu hvort heldur er um jól eða á öðrum tímum. Sorgin og gleðin eru systur og nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að þær geti blómstrað hlið við hlið á sama tíma. Óskin fagra um gleðileg jól er ekki ósk um yfirborðskátínu og afneitun á raunverulegum tilfinningum heldur að hver og einn finni sína leið til að njóta jólahátíðarinnar með sínum hætti. Gefum fólki leyfi til þess.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -