Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Ótrúlegt augnablik Ólínu með Elísabetu: „Læddist dauðstressuð til að smeygja mér úr sokkabuxunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur, átti ógleymanlegt augnablik með Elísabetu II Englandsdrottningu heitinni þegar hún kom hingað í opinbera heimsókn árið 1990. Henni finnst drottningin einfaldlega hafa verið merkasti þjóðhöfðingi Evrópu, fyrr og síðar og er glöð yfir því að hafa átt þetta ógleymanlega atvik með drottningunni.

Frá upplifun sinni segir Ólína á Facebook og svo hljóðar frásögn hennar:

„Elísabet II. var stórmerk kona. Mögnuð manneskja.
Hugtakið „göfgi“ mætti skilgreina með vísan til hennar – afstöðu hennar til hlutverks síns en ekki síður persónuleika hennar. Hún var þjónandi þjóðhöfðingi og helgaði líf sitt þjóð sinni.

Ég var svo lánsöm að hitta hana og Philip eiginmann hennar á borgarstjórnarárum mínum á tíunda áratugnum. Þau komu þá í opinbera heimsókn til Reykjavíkur í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Mér er minnisstæð framkoma þeirra beggja, svo elskuleg, alþýðleg og áhugasöm sem þau voru um alla sem þau heilsuðu og ræddu við í Höfða af þessu tilefni. Þau stöldruðu við og ræddu við hvern einasta boðsgest sem Davíð kynnti samviskusamlega fyrir þeim. Davíð er mér raunar líka minnisstæður úr þessari veislu, því hann hóf sig svo gjörsamlega yfir flokkslínur í kynningum sínum og gerði stundina mjög eftirminnilega fyrir bæði samherja og pólitíska andsæðinga.

Svo kom röðin að okkur Sigga – ég hafði rétt áður en að þessu kom uppgötvað svakalegt lykkjufall á sokkabuxunum mínum, hef sennilega rekið mig í eitthvað á leiðinni inn. Ég gat ekki hugsað mér að standa og ræða við drottninguna með risastórt lykkjufall aftan á kálfanum svo ég læddist dauðstressuð afsíðis til að smeygja mér úr sokkabuxunum og rétt náði í tæka tíð til baka.

Davíð var í essinu sínu og kynnti mig vel fyrir drottningu. Af mæli hans mátti ráða að ég væri spútník pólitíkus, leiðtogi nýrrar sameinaðrar bylgju jafnaðarmanna (sem var auðvitað draumurinn þá um stundir en nokkrum árum síðar gekk Nýr vettvangur inn Reykjavíkurlistann og nýtt fólk tók við keflinu). Nema hvað, hann gerði ítarlega og góða grein fyrir mínum fyrri störfum, að ég væri 4ra barna móðir (5ta barnið ekki komið á þeim tíma), fréttamaður og fleira, og drottning lyftist öll upp. „Really? How interesting“ sagði hún og tók að spyrja mig spjörunum úr. Sagði mér frá sínum börnum og ræddi hlutskipti margra barna mæðra í opinberum störfum, vanda móðurhlutverksins, hlutverk fjölmiðla í opinberri umræðu og stöðu kvenna á breytingatímum.

- Auglýsing -

Fljótlega eftir að samtalið hófst hnippti Philip drottningarmaður í Sigga manninn minn og fór að spyrja hann um málverk og myndir á veggjum. Siggi, fróður um listasögu og sagnfræðingur góður, svaraði samviskusamlega og áður en við var litið voru þeir komnir í hrókasamræður um sögu Reykjavíkur þar sem þeir röltu um og skoðuð myndir á veggjum í veislusalarins. Aðrir gestir hljóta að hafa verið farnir að ókyrrast, því samtalið dróst á langinn, en svo þegar því var að ljúka var Philip aftur kominn upp að hlið drottningar – leið þangað eins og reykur án þess að séð væri að hún hefi gefið honum neina bendingu – á hárréttu augnabliki til þess að kveðja okkur hjónin um leið og þau sneru sér að næstu gestum.

Þetta var ógleymanlegt atvik og mér þykir afar vænt um myndina sem tekin var af þessu tilefni. Davíð hef ég alltaf þakkað í huganum fyrir hversu mikill höfðingi hann var á þessari stundu, því það var honum að þakka hversu áhugasöm og gjöful drottningin var í þessu samtali okkar … sem nú er dýrmæt minning að henni genginni.

Hún er í mínum huga einn al merkasti þjóðhöfðingi Evrópu fyrr og síðar. Eftirminnileg kona og einstök.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -