Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sleit vinskap við Val Arnarson, verkfræðing og tónlistarmann, í gær. Í það minnsta „de-friend-aði“ hann Val á Facebook. Svo virðist sem seðlabankastjóra hafi ekki hugnast grín Vals á kostnað forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur.
Valur segist í samtali við Mannlíf hafa tekið eftir þessu í gær en í símanum sínum er hann með forritið Unfriend Finder. Líkt og nafnið gefur til kynna getur hann séð með því hver afvinar hann á Facebook. Hann telur allar líkur á því að færsla hans um Katrínu hafi gert útslagið.
Í þeirri færslu deildi hann færslu Jæja þar sem gert var grín að því að nú séu fimm ár síðan Katrín sagði á Alþingi: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Í þeirri færslu segir enn fremur:
„Í dag, 13. september, eru fimm ára síðan Katrín Jakobsdóttir lát þessi orð falla í ræðu á Alþingi og enn bíðum við. Þetta var korter í kosningar 2017. Skömmu seinna var hún orðin forsætisráðherra. Síðan þá hefur fyrirsjáanlega ekkert gerst í málefnum fátækra, öryrkja, eða láglaunafólks, nema til hins verra. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn var aldrei að fara að skila réttlátara samfélagi og mun aldrei gera það. Því Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur auðstéttarinnar sem hagnast á okur og arðránskerfinu sem flokkurinn hefur byggt upp í landinu. Tugþúsundir Íslendinga búa við fátækt. Kostnaður almennings við að lifa hefur aukist stórkostlega á þessum árum og núna hefur verðbólga bæst við sem kemur verst niður á fátæku fólki. Bensínverð er það hæsta í heiminum á Íslandi og matvælaverð með því hæsta.“
Valur tekur vinaslitinum við seðlabankastjóra ekki illa og segir: „Mikið væri nú gott ef stýrivextirnir hans unfrienduðu mig líka.“