Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Hendur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir Sólveigu Jónsdóttur

Ég horfi stundum á hendurnar á mér. Þegar ég er skrifa, búa til mat eða spila á píanó. Ferill minn sem handamódel endaði áður en hann byrjaði enda bý ég yfir mörgum kostum en fínleg handafegurð er ekki þar á meðal. Einn fingurinn er með flennistórt ör eftir að ég sneiddi hann næstum því af mér við að ná steini úr avókadó, dyntóttasta ávexti jarðar. Tvö ör eftir brunasár frá súpugerðardögum mínum á kaffihúsinu sem ég vann á fyrir mörgum árum. Góður hringur á einum fingri. Ég man vel eftir því þegar dóttir mín tók utan um fingurinn minn í fyrsta skipti. Og líka þegar stjúpdætur mínar teygðu sig í hendurnar mínar í fyrsta sinn og báðu mig um að leiða sig.

Það hljómar ef til vill einkennilega en ég man hendur fólks alltaf vel. Mér þykja þær fallegar (annað en tær, þær eru nú meiri viðbjóðurinn) og ég man sérstaklega vel eftir höndum kvennanna í lífi mínu. Risastórar og sterkar hendur langömmu minnar sem létu ungbörnin sem hún hélt á virðast enn þá smávaxnari. Hendurnar hennar elsku ömmu, svo hlýjar, góðar og umvefjandi. Traustar hendur mömmu minnar. Stundum sigggrónar og þurrar eftir langa daga í fjósverkum, girðingarvinnu eða hvers konar útivinnu, en samt ávallt þær allra mýkstu.

Einu sinni tók ég viðtal við mann sem hafði misst báða handleggi í slysi og beið þess að komast í handaágræðslu. Hann sagði mér að það allra fyrsta sem hann ætlaði að gera, þegar hann væri aftur kominn með hendur, væri að nota þær til að faðma börnin sín. Hendur fólks eru jafnólíkar og manneskjurnar áfastar þeim. En ef við gætum sammælst um að títtnefndar hendur væru allar notaðar í sama eða svipuðum tilgangi; að strjúka, klappa, faðma og leiða, þá værum við öll í nokkuð góðum málum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -