Leiðarinn birtist í Mannlífi 14. febrúar 2020.
Veikir íbúar. Skortur á læknisþjónustu. Vöntun á sértækum úrræðum til handa þeim sem þurfa á slíku að halda. Mannekla, fjárskortur og að því er virðist almennt úrræðaleysi. Hún er ekki fögur, myndin sem hefur verið dregin upp af ástandinu á íslenskum hjúkrunarheimilum í fjölmiðlum síðustu daga.
Maður nokkur lýsir því í viðtali hvernig faðir hans var sendur um nótt með sjúkrabíl af hjúkrunarheimilinu, sem hann býr á, á bráðamóttökuna vegna lungnabólgu. Á hjúkrunarheimilinu hafi ekki verið hægt að veita honum læknisþjónustu. Hana hafi maðurinn fengið á spítalanum þar sem hann þurfti að dvelja í tvo sólarhringa í kraðakinu á bráðamóttökunni, eða við „frekar óvistlegar aðstæður“ eins og sonurinn orðar það, þar til hann náði sér og var sendur með sjúkrabíl aftur á hjúkrunarheimilið. Maðurinn sem um ræðir er að verða níræður.
Yfirlæknir á minnismóttöku Landspítalans segir hjúkrunarheimilin ekki eiga annarra kosta völ en að senda veika íbúa í vaxandi mæli á spítala því á heimilunum sé hreinlega ekki nóg af fagfólki til að annast þá. Sumir séu svo slæmir til heilsunnar að þeir snúi jafn vel ekki aftur. „Þá hugsar maður hvert er framhaldið fyrir þetta fólk,“ segir læknirinn. „Á það að búa á spítalanum eða hvert er hægt að vísa því?“
„Við eigum að kappkosta að skapa fólkinu okkar áhyggjulaust ævikvöld, en ekki bjóða upp á skert lífsgæði, auðmýkingu og óviðunnandi aðstæður.“
Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna lýsir því annars staðar hvernig spítalinn útskrifar fólk á hjúkrunarheimilin og hvernig þau útskrifa fólk svo aftur á spítalann. „Þetta er vítahringur,“ segir framkvæmdastjórinn. Orð sem vekja hugrenningatengsl við gamlar, hrollvekjandi sögur af sjúklingum og eldra fólki sem hreppsnefndir fyrri tíma reyndu að losa sig við í gríð og erg og koma yfir á önnur sveitarfélög til framfærslu og umönnunar. Jafn vel þótt það þýddi að flytja þyrfti fólkið milli landshluta við alls konar ömurlegar aðstæður. Erum við kannski á svipuðum slóðum í dag?
Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að beina spjótum að heilbrigðisstarfsfólki. Það gerir sitt besta í erfiðum aðstæðum og hefur auk þess oft bent á bresti kerfisins í gegnum tíðina, að á hjúkrunarheimilum þurfi nauðsynlega að fjölga fagmenntuðu fólki til að sinna íbúum með viðeigandi hætti. Því hefur verið tíðrætt um þetta og sömuleiðis afleiðingarnar, þar á meðal hættuástandið á bráðamóttökunni, sem sé fyrir löngu sprungin af því að viðeigandi spítaladeildir geti ekki tekið við sjúklingunum, þær séu einfaldlega fullar af eldra fólki sem hjúkrunarheimilin geti ekki sinnt. Þetta fólk hefur líka bent á að innan stjórnsýslunnar sé eins og menn stingi höfðinu í sandinn þegar þessi mál beri á góma. Og um þessi atriði sé aldrei samið.
Stjórnarflokkarnir þrír hafa lofað að fjölga hjúkrunarrýmum, sem er gott og blessað. En það er ekki nóg. Ekki ef það vantar fjármagn og mannskap til að vinna störfin svo íbúarnir geti lifað við mannsæmandi aðstæður. Hér þarf breyttar áherslur. Við eigum að kappkosta að skapa fólkinu okkar áhyggjulaust ævikvöld en ekki bjóða upp á skert lífsgæði, auðmýkingu og óviðunnandi aðstæður. Þetta er fólkið sem stritaði og púlaði margt hvert til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, til að við hefðum það gott. Það á miklu betra skilið.
Og hvað svo með þau okkar sem nú erum að eldast? Ef ekki verður brugðist við í dag hvað bíður okkar þegar ellin færist yfir og starfsþrekið dvínar?