Höfundur / Óttar Norðfjörð
Suður-kóreska kvikmyndin Sníkjudýr hlaut Óskarsverðlaunin fyrir bestu myndina síðustu helgi og varð þar með fyrsta myndin á öðru tungumáli en ensku til að gera það. Hún vann þrenn önnur Óskarsverðlaun og þegar sigurhrinan hófst byrjuðu svo margir S-Kóreubúar að horfa á hátíðina að atvinnulífið hálflamaðist.
S-Kórea hefur lengi litið á sig sem peð í alþjóðamálum, en þessi frægustu verðlaun heims hafa breytt því í hugum margra. Þau gáfu þjóðinni rödd og settu landið rækilega á kortið. Á aðeins örfáum dögum hefur áhugi á suður-kóreskum bíómyndum, menningu og landinu sjálfu margfaldast og forsetinn hefur lofað stóraukinni fjárveitingu í innlenda kvikmyndagerð. Nú skal hamra járnið meðan það er heitt og vekja enn meiri athygli á landi og þjóð.
Hinum megin á hnettinum er annað land þar sem kvikmyndagerðin er líka á lygilegri siglingu. Tónskáldið Hildur Guðnadóttir sprengdi okkur öll úr stolti með því að vinna Óskarsverðlaunin og undanfarin ár hafa íslenskir leikstjórar rúllað upp Cannes, San Sebastian og Sundance, svo fleiri stórhátíðir séu nefndar. Tvær íslenskar sjónvarpsseríur fara síðan bráðlega í alheimsdreifingu á Netflix, til yfir 190 landa, sem er einsdæmi í sögu íslensks sjónvarpsefnis.
En á sama tíma berst íslensk kvikmyndagerð í bökkum og enginn forseti eða forsætisráðherra hefur talað fyrir stóraukinni fjárveitingu í iðnaðinn. Verkefni eru ekki gerð sökum skorts á fjármagni og frábær handrit sitja á hakanum. Með aukinni aðstoð gæti íslensk kvikmyndagerð komið landinu enn frekar á kortið. Við gætum orðið Suður-Kórea norðursins!
Kæru ráðamenn, sannkölluð kvikmyndabylting á sér nú stað í landinu, en styrkir eru enn of fáir og of lágir fyrir þá hugmyndaauðgi sem hér býr. Það má kannski segja að íslenskt kvikmyndagerðarfólk upplifi sig sem sníkjudýr, því það er lítinn stuðning eða skilning að fá. Hömrum járnið meðan það er heitt og ég lofa að þetta verða ekki síðustu Óskarsverðlaunin okkar.