Skilningur á skapandi greinum og listum hefur oft og tíðum verið lítill og því síður notið verðskuldaðrar virðingar. Þetta viðhorf sést best þegar listamannalaunum er úthlutað en þau eru í sjálfu sér ekki laun heldur styrkur fyrir ákveðin verkefni. Ég velti því fyrir mér hvort nafnið „laun“ sé ein ástæðan fyrir sífelldum fordómum. Sjávarútvegurinn og bændur fá til að mynda gríðarlega styrki ár eftir ár en það skapast ekki heitar umræður um þær úthlutanir á ári hverju. Getur verið að um sé að kenna gamaldags viðhorfum og fordómum, að það sé „alvöruvinna“ að vera bóndi en sá sem semur tónlist eða hannar húsgögn sé bara að dunda sér. Þetta sést oft í kommentakerfum þegar listi yfir þau sem fá úthlutað er gerður opinber. Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið setninguna „getur þetta fólk ekki unnið alvöruvinnu eins og við hin“ og orð eins aumingjar og auðnuleysingjar hafa því miður oft sést í umræðunni. Þessi orðræða er ekki beint til þess fallin að efla sjálfstraust hjá listafólki en höfum eitt á hreinu að það er lélegt samfélag sem á enga menningu og hana skapar listafólk að stórum hluta.
Fólk sem vinnur við listir, hvort sem það er myndlist, tónlist, ritlist, hönnun eða sviðslistir þarf allt of oft að réttlæta vinnu sína og útskýra hvernig og hvort það geti lifað af „þessu“. Mig langar að taka fram að hönnun og listir eru mér hugleiknar annars myndi ég ekki starfa á þeim vettvangi sem ég geri. Ég hef líka verið gift tónlistarmanni í bráðum 25 ár svo mér er málið skylt. Ein algengasta spurningin sem ég fékk þegar við vorum að byrja saman, og fæ reyndar of oft enn, er: „vinnur hann eitthvað með þessu,“ eða „getur hann lifað af tónlistinni einni saman?“ Til allrar lukku gat ég stundum sagt að hann kenndi líka tónlist en það er viðurkenndara, það er vinna. Auðvitað ætla ég ekki að skafa utan af því að stundum hefur verið hart í ári og erfitt að neita verkefnum. Ég er til dæmis að skrifa þennan pistil á laugardagskvöldi af því að tónlistarmaðurinn minn er að spila (vinna) á Akureyri, meiri aumingjarnir þetta lið í skapandi greinum!
Í febrúar fór ég á eina af stærstu og glæsilegustu innanhúss- og búsáhaldavörusýningum í heimi, Ambiente, sem haldin er í Frankfurt í Þýskalandi tvisvar á ári en þúsundir kaupmanna hvaðanæva að úr heiminum heimsækja sýninguna ár hvert. Eftir að hafa reynt að skoða alla 4600 sýningarbásana er ég þess fullviss að íslensk hönnun er með þeim áhugaverðari í heiminum. Það hlýjaði mér um hjartaræturnar þegar ég hitti nokkra erlenda ritstjóra sem þekktu vel til íslenskra hönnuða og minntust á áhugaverðan viðburð, HönnunarMars. En hvar voru íslensku sýningarbásarnir á Ambiente? Ekki einn íslenskur bás var á þessari sýningu og ég velti fyrir mér hvað veldur. Getur verið að íslenska hönnuði vanti sjálfstraust af því að þeir eru alltaf að réttlæta vinnuna fyrir samfélaginu? Eða er samfélagið kannski búið að tala skapandi listir svo mikið niður að hönnuðir og listafólk er óöruggt? Eða getur mögulega verið að það þurfi að auka fjárútlát fyrir skapandi greinar og styrkja íslenska hönnun til útrásar, blása til sóknar, Ísland er jú lítill markaður þegar upp er staðið. Eitt er víst að mikil gróska á sér stað um þessar mundir sem sést einmitt vel á HönnunarMars sem haldinn er í tólfta sinn á þessu ári með metnaði sem aldrei fyrr. HönnunarMars er orðinn hluti af okkar menningu og hann er ekki bara fyrir hönnuði heldur alla.
Til allrar hamingju stækkar hópurinn sem hefur skilning á mikilvægi lista í hvað formi sem er, þótt við eigum enn eitthvað í land. Bergsteinn Sigurðsson sagði þessi fleygu orð í þættinum Að lokum hér í blaðinu þegar hann var spurður hvort menning væri mikilvæg: „Hún heldur kannski ekki í okkur lífinu en gerir það hins vegar þess virði að lifa því.“ Mér finnst vel við hæfi að kveðja með þessum orðum en langar að lokum að óska Hildi Guðnadóttur til hamingju með Óskarinn og spyrja hana í leiðinni hvort hún vinni eitthvað með þessu?