Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Njala, leðurblökur og Covid-19

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Vorið 2018 ók ég í þrjá tíma út fyrir Freetown, höfuðborg Síerra Leóne. Þegar ég beygði út af þjóðveginum og inn á holóttan moldarveg blasti við mér skellótt og beyglað skilti sem á stóð Njala University. Sú hugmynd flögraði að mér að fara út úr bílnum og krota kommu yfir a-ið á skiltinu.

Háskólasvæðið sem blasti við mér eftir smá akstur á þessum hliðarvegi var mikið flæmi með fáar og illa farnar byggingar. Það sem hafði einu sinni verið afburða menntastofnun í landbúnaðar- og lífvísindum er í dag ekki nema svipur hjá sjón eftir áratugar borgarastyrjöld í landinu og ebólufaraldur sem fylgdi í kjölfarið.

Ég hafði verið beðinn um að halda erindi um siðfræði vísinda og rannsókna fyrir hóp starfsmanna. Þeir voru aftur farnir að sinna alþjóðlegu rannsóknasamstarfi og höfðu áhyggjur af orðspori menntastofnana í álfunni. Ástæða þess að skólinn var farinn að fá fjármuni og beiðni um samstarf erlendis frá var sú að ebólufaraldurinn hafði kveikt áhuga vísindamanna á að skoða hvað var að gerast í náttúrufari Afríku. Miðstöð sjúkdóma- og forvarna í Bandaríkjunum hafði til dæmis veitt styrk til leðurblökurannsókna í Síerra Leóne sem fram fóru í Njala. Fleiri styrktaraðilar voru einnig áhugasamir.

Það var einmitt í byggingunni þar sem leðurblökurannsóknirnar fóru fram sem ég hélt erindið. Líklega kom það til vegna þess að þetta var eina byggingin sem var tengd stöðugu rafmagni og mögulegt var að hafa myndvarpa (og loftkælingu) í gangi. Áður en ég byrjaði var mér m.a. sýnt ofan í frystikistur þar sem ótal leðurblökur voru geymdar. Sú sjón var býsna eftirminnileg. Þessi dýr hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér og í því samhengi sem þær voru þarna geymdar þá vöktu þær mikla ónotatilfinningu.

Tilgátur eru uppi um að veirur eins og þær sem orsaka ebólu komi úr leðurblökum og að breytingar á vistkerfi þeirra muni valda annars konar og örara samneyti við fólk með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og leðurblökur eru ekki einu dýrin sem geta borið skaðlegar veirur, beint eða óbeint, yfir í manneskjur. Tilgátur um uppruna veirunnar sem veldur Covid-19 benda á önnur möguleg dýr.

- Auglýsing -

Í nýlegri grein um ólík rök fyrir náttúruvernd tók ég sem dæmi það sem ég kallaði „nýlega ástæðu fyrir náttúruvernd“. Átti ég við þá kenningu að eyðing afskekktra skóga og heimkynna sjaldgæfra dýra, ásamt neyslu á framandi dýrum, kunni að vera orsakaþáttur í að leysa úr læðingi og ýta undir útbreiðslu sjaldgæfra sjúkdóma og náttúruhamfara. Í þessari grein ýtti ég slíkum vangaveltum fremur frá mér með þeim rökum að enn væru þessar hugmyndir of óljósar til að mikið væri á þeim að byggja. Stundum eru þær líka settar fram með einkennilegri manngervingu á náttúrunni, eins og hún taki ákvarðanir og geti hefnt sín á þeim sem virða hana ekki.

En sú veiruógn sem við fáumst við þessa dagana hefur ýtt við mér þótt ég sé almennt ekki hrifinn af mannhverfum rökum fyrir náttúruvernd. Heimurinn allur þarf að fara að taka vernd náttúru Afríku, Suður-Ameríku og Asíu alvarlegar en hingað til. Og þá skiptir líklega engu máli þótt það sé gert af eigingjörnum hvötum. Hver veit nema ósnortin náttúra og dýralíf í heilbrigðum vistkerfum á stórum hluta jarðarinnar sé ekki óraunhæfur munaður heldur spurning um tilvist mannkyns til framtíðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -