Landsfundi Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, lauk í gær. Á fundinum var kosið í nýja framkvæmdastjórn og félagastjórn Uppreisnar. Þá voru Uppreisnarverðlaunin einnig veitt og Uppreisn sendir frá sér stjórnmálaályktun um stöðu íslensks samfélags.
Við upphaf Landsfundar veitti félagið Uppreisnarverðlaunin í fjórða sinn. Verðlaunin eru árlega veitt sem viðurkenning á og þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf í þágu frelsis, jafnréttis og opnara samfélags, en það eru grunngildi félagsins. Verðlaunin eru veitt í tvennu lagi, annars vegar til einstaklings og hins vegar til fyrirtækis eða félagasamtaka.
Í flokki einstaklinga var það Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem fékk verðlaunin. Hlaut hann verðlaunin einkum fyrir framlag sitt til alþjóðasamstarfs, frjálslyndis og þátt hans í því að ungt fólk hlaut sæti ofarlega í Reykjavíkurkjördæmum í síðustu Alþingiskosningum.
Í flokki félagasamtaka voru það Landssamtökin Þroskahjálp sem fékk verðlaunin fyrir herferðina sína Hvað er planið? þar sem ljósi er varpað á stöðu fatlaðra ungmenna þegar kemur að námstækifærum að loknu námi af starfsbrautum framhaldsskólanna. Uppreisn tekur heilshugar undir þessa áskorun og mikilvægi þess að ungt fólk með fatlanir sé gefið pláss í atvinnulífinu og samfélaginu í heild.
Þá sendi Uppreisn frá sér stjórnmálaályktun en þar lýsir ungliðahreyfingin þungum áhyggju yfir stöðu íslensks samfélags. Segir í ályktuninni að grunnstoðir samfélagsins séu að bogna undan álagi vegna kerfis sem hætt er að virka fyrir almenna borgara. Farið er yfir stöðu húsnæðismarkaðarins í ályktuninni, heilbrigðiskerfið og vaxtahækkana. Hér fyrir neðan má sjá ályktun Uppreisnar í heild sinni:
„Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu íslensks samfélags. Það er fyrir löngu orðið ljóst að grunnstoðir samfélagsins eru að bogna undan álagi vegna kerfis sem hætt er að virka fyrir hinn almenna borgara.
Þegar litið er til húsnæðismarkaðarins eru vextir búnir að hækka upp úr öllu valdi og eru aftur í engu samræmi við þau ríki sem við berum okkur saman við. Fasteignamarkaðurinn er hættur að virka og fólk farið að seinka flutningum úr foreldrahúsum. Uppreisn lýsir ekki bara áhyggjum yfir auknum fjölda vandræðalegs einnar nætur gamans heldur líka þeim langtíma áhrifum sem það mun hafa. Það að fólk seinki flutningum úr foreldrahúsum gerir að verkum að fólk stofnar seinna til fjölskyldu. Til langs tíma mun það hafa neikvæðar afleiðingar á lífeyrissjóðskerfið okkar, þegar sú kynslóð sem núna á í erfiðleikum með að eignast sína fyrstu fasteign fer á eftirlaun.
Heilbrigðiskerfið er líka hætt að virka fyrir fólk. Endalausar fréttir af manneklu og lausum samningum í heilbrigðiskerfinu sýna okkur að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki í stakk búin til að efla heilbrigðiskerfið. Þess í stað ákveða þau að banna bragðbætta nikótínpúða. Nýir samningar við sérgreinalækna, sjúkraþjálfara og fleiri heilbrigðisstéttir hafa enn ekki komið fram og áhugaleysi heilbrigðisráðherra virðist vera algjört. Til að mynda gleymdi hann í byrjun þessa mánaðar að framlengja þá undanþágu sem notast hefur verið við meðan samningar eru lausir.
Það er öllum ljóst að Ísland er hætt að virka eins og við eigum skilið að það virki. Verðbólga er í hæstu hæðum og aðallega er keyrð áfram af húsnæðisskorti. Kaldur vetur kjaraviðræðna er framundan og ríkisstjórnin getur ekki einu sinni komið sér saman um það hvernig skattaumhverfi hún vill. Það er því ljóst að ríkisstjórn þriggja íhaldsflokka, sem geta ekki komið sér saman um neitt nema hver eigi að sitja hvar við ríkisstjórnarborðið, er ekki starfi sínu vaxin.“