Sunnudagur 19. janúar, 2025
0.7 C
Reykjavik

Ég hugsa að ég hugsi um

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Undanfarið hef ég verið spurður álits á þeirri ótrúlegu atburðarás sem við höfum upplifað síðastliðnar vikur. Ég hef ekki verið sérstaklega viljugur að tjá mig enda ekki fundist ég hafa mikið að segja. Meðan á faraldri stendur eru heimspekilegir vinklar ekki þeir mikilvægustu. Hér á Íslandi hefur okkur borið gæfa til að láta einmitt það fagfólk vera í forsvari sem á að leiða umræðuna við þessar aðstæður. Það hefur helst verið að maður hafi einmitt viljað taka undir mikilvægi þess að ákvarðanir séu teknar á réttum stöðum og hvernig það er órjúfanlegur hluti lýðræðislegs skipulags að fela vald í hendur sérfræðinga.

Því miður hefur heilbrigðisstarfsfólk víða um heim vissulega þurft að taka erfiðar siðferðilegar ákvarðanir sem snúa að forgangsröðun. Kennsla í siðfræði fer oft fram í klípusöguformi þar sem velja skal milli tveggja slæmra kosta. Kannski ekki skrítið að einhverjum finnist að fólk sem hefur fengist við gildisvísindi ætti að láta í sér heyra við þessar aðstæður. En eins og ég sagði frá í erindi mínu á Heilbrigðisþingi síðastliðið haust þá held ég að heilbrigðisstarfsmenn geti alveg staðið vörð um mannhelgi sjúklinga án utanaðkomandi aðstoðar. Eitt það merkilegasta sem maður hefur orðið vitni að undanfarnar vikur er hversu sterk fag- og siðferðisvitund heilbrigðisstétta er þegar mikið reynir á.

Auðvitað eru skiptar skoðanir meðal kollega minna hvað sé að eiga sér stað varðandi gildi okkar og lífsviðhorf. Margir spá miklum viðsnúningi í gildismati okkar. Persónulega held ég að við ættum að fara varlega í tilgátur um að ekkert verði samt að nýju. Lífsviðhorf fólks taka yfirleitt breytingum á lengri tíma heldur en þessi krísa hefur staðið yfir. Þetta kann að breytast ef hún dregst á langinn en almennt held ég að við munum leita í sömu för að nýju. Óskalistar okkar um nýja og bætta veröld munu tæplega rætast.

En atburðirnir undanfarið munu svo sannarlega gefa tilefni til vangaveltna. Listinn yfir umhugsunarefni sem ég hef verið að hripa niður hjá mér lengist daglega. Ég mun til dæmis velta fyrir mér hvort okkur hafi tekist að forðast að finna okkur blóraböggla vegna faraldursins eða að skapa handahófskennda skömm tengda honum. Mun okkur takast að komast í gegnum þetta af virðingu við hvort annað – ekki síst þá sem hafa smitast? Annað atriði er hvort trú og okkar og skilningur á samábyrgð hefur styrkst. Er til dæmis frjálshyggja í vandræðum þegar kemur að svona áskorunum? Talsmenn slíkrar hugsunar neita því og segja að ríkið eigi einmitt að koma til aðstoðar þegar slík hætta steðjar að. En það vekur á móti upp þá spurningu hvernig hið opinbera á að vera í stakk búið ef ekki eru þegar til staðar sterkar stofnanir sem geta tekið verkefnin að sér. Erum við ekki ánægð með að hér sé öflugt landlæknisembætti starfrækt, svo dæmi sé tekið?

Spurningar hafa einnig vaknað um afmarkaðri atriði sem maður hefur fengist við. Fólk hefur líklega tekið eftir því að núningur hefur skapast um það regluumhverfi sem vísindarannsóknum er gert að starfa eftir. Umræðan sem fór fram í fjölmiðlum var ekki uppbyggileg enda byggð á misskilningi. En það breytir því ekki að á næstunni verður áhugavert að ræða hvaða viðmið ættu að gilda í fordæmalausum aðstæðum varðandi siðferðileg viðmið í vísindastarfi. Það sama gildir um friðhelgi einkalífs og persónuvernd almennt.

- Auglýsing -

Stærri siðfræðilegar spurningar vakna varðandi þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Spurningar um sanngirni og réttlæti eru þar mest áberandi. Peningaprentvélar heimsins ganga allan sólarhringinn þessa dagana og hafa margir áhyggjur af því hvernig þeir peningar dreifast. Við munum svo einnig þurfa að skoða hvaða hópar hafa farið verst út úr sjúkdóminum og, ekki síður, þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Aðgerðirnar hafa minnt okkur á hvers vegna svo brýnt er að grípa sem fyrst til úthugsaðra langtímaaðgerða í loftlagsmálum. Við sjáum hvaða efnahagslegu og félagslegu hörmungar fylgja því að grípa í handbremsuna og slökkva því sem næst á hagkerfi heimsins.

Fleiri áhugaverðir punktar munu komast í sviðsljósið og leita á hugsun manns. Eitt atriði er hvernig svokallað gigg-hagkerfi hefur náð að festa sig í sessi á Vesturlöndum. Atvinnuöryggi hefur sífellt verið að minnka og finnur það fólk sem á allt sitt undir næsta verkefni meira fyrir fjárhagslegri hlið faraldursins heldur en aðrir. Ég spái því að sanngirni þessa kerfis verði í sviðsljósinu á næstu misserum.

Helst munu þó hugleiðingar leita á mig varðandi þá hluta heimsins sem viðkvæmastir eru í þeirri stöðu sem upp er komin. Ástandið mun versna í mörgum löndum sem ekki máttu við því. Það er hætt við því að flóttamannastraumur undanfarinna ára muni ekki þykja mikill miðað við þá holskeflu sem búast má við á næsta ári. Á sama tíma munu landamæri aldrei verða eins lokuð og tortryggnin meiri. Hvernig mun okkur takast að snúa okkur út úr þeirri stöðu með réttlæti og mildi að leiðarljósi? Ég hugsa að ég muni hugsa um það í náinni framtíð.

- Auglýsing -

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -