Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að nú loksins sé Covid-19 faraldrinum að ljúka. Hann segir veiruna vera í sínum huga orðna að „eldgamalli púkalegri veiru í bell-bottoms“.
Yfirmaður hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar tekur í sama streng í samtali við Fréttablaðið og forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sagði faraldurinn í síðustu viku vera í rénun. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýsti því svo yfir um helgina að honum væri lokið í Bandaríkjunum.
„Ég hef lokað skilningarvitum mínum fyrir öllu tengdu Covid,“ segir Kári um heimsfaraldurinn en ítrekar á sama tíma mikilvægi örvunarskammta bóluefnis gegn veirunni.
„Þetta eru ekki flókin vísindi,“ segir Kári og bendir á að Covid sé ólík mörgum öðrum veirusýkingum að því leyti að oftar þurfi að skerpa á mótefninu með örvunarskömmtum: „Eftir að ég fékk þriðja skammtinn í ágúst í fyrra var ég með 17.500 títer. Ég sýktist síðan af veirunni í apríl og eftir það var ég með 63.000 títer.“