Þriðjudagur 21. janúar, 2025
-0.1 C
Reykjavik

Viðskiptasiðferði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Í síðustu viku sat ég snemma morguns við yfirlestur á MA-ritgerð hjá nemenda sem ég hef verið að leiðbeina. Rannsóknarefni hans er á sviði viðskiptasiðfræði. Í tölvupósti var hann búinn að nefna við mig að kannski gengju viðskipti og siðferði seint hönd í hönd, markmiðin væru svo ólík. Svarið á rannsóknarspurningunni sem hann var í óða önn við að leggja síðustu hönd á gerði mig hins vegar nokkuð bjartsýnan hvernig mætti styrkja skilning og sýn viðskiptalífs á gott siðferði.

Þar sem ég velti þessum málum fyrir mér hafði blaðamaður Mannlífs samband við mig til að falast eftir kommenti frá mér um þær dapurlegu fréttir sem þá höfðu tröllriðið fjölmiðlum um að vel stæð fyrirtæki sem höfðu nýtt sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Eðlilega fórnuðu margir höndum yfir því viðskiptasiðferði sem birtist í þessari ásókn í opinbera aðstoð og hugtök eins og „siðblinda“ voru viðruð víða.

Vissulega verður að viðurkennast að tímarnir núna eru einfaldlega þannig að víða í viðskiptalífinu hefur sjálfsbjargarhvötin tekið við. Siðfræðileg greining þarf að gera ráð fyrir því að ekki megi gera óeðlilegar kröfur til fólks. En þarna virtust við hafa dæmi um það að sumir væru að teygja sig í kökukrúsina af græðgi fremur en nauðsyn. Fyrsta kommentið sem ég vildi láta hafa eftir mér var að þótt ekki hafi verið girt fyrir að maður geti sótt í tiltekin gæði þýðir það ekki að maður hafi rétt á þeim. Almennt finnst mér því íslensk stjórnvöld of lin við að skerpa á eftirliti og umsýslu þegar gæðum er úthlutað. Hugmyndin virðist oft vera sú að treysta á dómgreind forsvarsmanna fyrirtækja. Það hefur ekki alltaf skilað tileinkuðum árangri

Sem betur fer tókst þó að láta forsvarsmenn fyrirtækja svara fyrir ákvarðanir sínar. Fjölmiðlar sýndu enn og aftur mikilvægi sitt. Mér fannst ágætt að minna á að fyrirtæki eru ekki einstaklingar sem við þurfum að fara varlega að. Flest starfa þau með sérstök leyfi frá samfélaginu um takmarkaða ábyrgð hluthafa. En þótt hún sé takmörkuð að vissu leyti er hún það ekki frá siðferðilegu sjónarhorni. Í raun má segja að siðferðilega ábyrgðin sé því meiri sem rekstrarlega ábyrgðin er takmarkaðri.

Það var þó ekki hægt að láta hafa neitt eftir sér um þetta allt saman nema benda einnig á að persónulega fannst mér hafa verið nokkur bragur á því hvernig margir forsvarsmenn viðurkenndu mistök sín – jafnvel eftir að þeir komu fram í viðtölum og sögðust ekki ætla að gera það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að mörgum finnst það engu skipta. Þeir hafi bara gefið eftir vegna þrýstings úr fjölmiðlaumræðunni. Mér finnst samt mikilvægt að halda því á lofti að það krefst alltaf hugrekkis að viðurkenna mistök. Við höfum oft séð forystufólk forherðast við samfélagslegan þrýsting og ég er feginn að við sáum það ekki gerast í þessu tilviki. Þessa dagana er ekki rými fyrir skotgrafir fyrir atvinnulíf annars vegar og almenning hins vegar.

- Auglýsing -

Það sem mig langaði samt mest að láta hafa eftir mér um þetta mál allt saman er hvernig viðskiptasiðferði er að vissu leyti margbrotnara fyrirbæri en látið er í veðri vaka. Á undanförnum árum hefur átt sér stað jákvæð þróun í átt að ríkari samfélagslegri ábyrgð í rekstri fyrirtækja á Íslandi. Fágaðir mælikvarðar hafa verið innleiddir til að sýna fram á hvernig sú vinna gengur og hvaða fyrirtæki hafa náð árangri í að innleiða samfélagslega ábyrgð í rekstur sinn. Eins jákvæð og þessi vinna er, þá skulum við ekki blekkja okkur um að nú getum við einfaldlega mælt siðferði fyrirtækja og eins og prófessor við Háskóla Íslands lofaði í viðtali við Vísi í síðustu viku. Fyrirtækin þurfa eftir sem áður að standast freistingu um að seilast ekki í opinbert fé sem auðveldar reksturinn. Eðli siðferðilegra ákvarðana er einfaldlega þannig að þær verða ekki smættaðar í forsniðna meginþætti.

Í Fréttablaðinu í dag mátti finna grein þar sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs ber sig illa yfir umræðunni um hlutabótaleiðina og þau fyrirtæki sem nýttu sér hana. Höfundur telur að fyrirtæki hafi verið öll að vilja gerð en að óskýr fyrirmæli hefðu gert það að verkum að enginn hafi vitað hverjir mættu í raun sækja um. Ég held að óvægin umræða hafi einmitt ekki átt rétt á sér en að sama skapi hefur þetta mál varpað ljósi á hvernig hægt er að efla siðferði viðskiptalífsins. Í þessu sambandi skiptir höfuðmáli að fyrirmæli stjórnvalda séu ljós og að þau hafi þrek til að beita valdheimildum. Einnig er nauðsynlegt að fjölmiðlar hafi rými og tækifæri til að beita eftirlitshlutverki sínu. Og að lokum verður að vera til staðar skilningur hjá forsvarsmönnum á hlutverki sínu og eðli þeirrar ábyrgðar sem fyrirtæki bera. Sú ábyrgð skilgreinist ekki af því hvað má og hvað ekki. Verkefni okkar er að efla saman það almannarými sem siðferðilegar ákvarðanir eru teknar í.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -