Nína Hjálmarsdóttir gagnrýnandi á RÚV er ekki hrifin af nýjasta verkinu sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu, söngleikurinn Sem á himni, á stóra sviðinu leikhússins.
Hún segir í byrjun að „tilhlökkunin liggur í loftinu á frumsýningu söngleiksins Sem á himni á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, enda hefur miklu verið tjaldað til, bæði í umbúnaði og flutningi.“
En tilhlökkun Nínu breyttist fljótlega í eitthvað allt annað og töluvert verra. Hún finnur margt að sýningunni og spyr margra spurninga:
„Hvernig komst þetta verk í gegnum mörg ár í covid og marga fundi og allt það klára fólk sem þarna starfar?
Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu?
Hvernig er það, stendur enginn vörð um að svona gerist ekki?
Hver er eiginlega tilgangurinn?
Hvað á þetta að segja okkur áhorfendum?
Hvers vegna var þetta verk valið inn sem stóra haustuppfærsla Þjóðleikhússins?
Eru engir ferlar eða krítería í leikritavali sem tryggja að nærgætni sé gætt gagnvart birtingarmynd fólks sem hefur sögulega verið ósýnilegt á sviði? Og hvort handritið sé eitthvað meira en innantómar klisjur?“
Nína segir að í verkinu er verið að gera lítið úr minnihlutahópum, og meira til. Hún segir að Sem á himni sé „verk sem ekki aðeins niðurlægir minnihlutahópa, og gerir lítið úr landsbyggðinni, heldur byggist á svo augljóslega illa skrifuðu handriti, að mig langar helst að stofna til mótmæla um að fá handritin heim, semsagt þetta handrit aftur heim til Svíþjóðar.“