Um hálf tvö leytið í nótt barst lögreglu tilkynning um ískyggilega líkamsárás þar sem argur dyravörður á skemmtistað var undir grun um að hafa ítrekað kýlt annan mann í höfuðið. Ekki er vitað um áverka þess sem fyrir árásinni varð.
Á sjötta tímanum í gær var bifreið stöðvuð í austurhluta borgarinnar. Í bifreiðinni voru meðal annars tvö börn, annað 14 mánaða hitt fimm ára. Enginn öryggisbúnaður var fyrir börnin. Yfirgaf móðirin bifreiðina með börnum sínum og hugðist taka strætó á áfangastað.
Rétt rúmlega eitt í nótt barst lögreglu tilkynning um rafhhjólaslys. Karlmaður hafði dottið af hlaupahjólinu. Þegar sjúkrabifreið kom á vettvang var hann meðvitundarlaus og blæddi frá höfði hans. Grunur leikur á að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis.
Þá var karlmaður handtekinn í Hafnarfirði grunaður um líkamsárás. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu. Rannsókn málsins stendur yfir. Ekki er vitað um áverka árásarþola.
Lögreglan hafði afskipti af tveimur mönnum framan við bílskúr í Kópavogi laust fyrir miðnætti. Mennirnir virtust vera undir áhrifum fíkniefna og aðspurðir um fíkniefni framvísuðu þeir plastpoka með ætluðum fíkniefnum.
Töluvert var um umferðalaga- og fíkniefnabrot seinnipartinn í gær og nótt samkvæmt dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.