Sjónvarpsmaðurinn geðþekki Gísli Marteinn Baldursson er með sterkar skoðanir á því hvernig framtíðarlandið, og sér í lagi höfuðborgin Reykjavík, eigi að vera. Mannlíf tók saman nokkur tíst sjónvarpsstjörnunnar í þá veru.
Gísli Marteinn gerði hryðjuverkamálið svokallaða að umtalsefni nýverið og tjáði þar skoðun sína á því hvernig forgangraða eigi hjá íslensku lögreglunni:
„Hugmynd: Afglæpavæðum vörslu fíkniefna en setjum fjármuni og orku lögreglunnar í að uppræta vopnaburð og handsama fólk sem ætlar að valda öðrum en sjálfum sér skaða. Og fækkum skotvopnum í umferð á Íslandi.
Í tilefni af bíllausa deginum í síðustu viku tjáði Gísli Marteinn sig einnig á Twitter. Þar tók hann afdrifalausa afstöðu gegn einkabílnum:
„Þau sem eru á bíl eru ekki bara að rústa jörðinni og gera borgina verri, heldur líka að setja Ísland á hausinn. Vildi bara nefna það.“
Innanlandsflugvöllurinn í Vatnsmýri er eilíft þrætuepli meðal landsmanna og sjónvarpsstjarnan Gísli hefur ákveðnar skoðanir á framtíð vallarins:
„Ein af ástæðunum fyrir því að við eigum að byggja í Vatnsmýri er að með því erum við komin með risastórt svæði sem verður draumur fyrir hjól. Sneiðum hjá Landakotshæð, Skólavörðuholti og Öskjuhlíð og þá er svo til flatt rennifæri,“ segir Gísli Marteinn.
Og meira um samgöngur og einkabílinn. Gísli Marteinn er eindreginn talsmaður hjólreiða og vill að hverfi framtíðarinnar taki mið af þeim. Þá verði allt betra:
„Lægri hraði, aukinn gróður, breiðari gangstéttar og alvöru hjólastígar. Allt eru þetta þekktar aðferðir við að búa til menneskjulegri götur þar sem mannlíf og þjónusta þrífst. Vonandi taka borgaryfirvöld þessari umleitan vel.“