Lögregla var kölluð út í gærkvöldi vegna umferðaróhapps sem átti sér stað í Hlíðunum. Ekið var á 16 ára dreng á rafskútu með þeim afleiðingum að hann kastaðist af hjólinu. Kemur fram í dagbók lögreglu að vitni hafi séð manninn „fljúga í loftnu með alla anga úti áður en hann lenti á götunni“. Drengurinn var fluttur í sjúkrabifreið á bráðadeild og fór lögregla með rafskútuna heim til hans og ræddi þar við forráðamann. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbíl.
Fyrr um kvöldið gómaði lögregla þjóf í Kópavogi. Maðurinn, sem var staðinn að þjófnaði í raftækjaverslun, var ekki með persónuskilríki meðferðis og þurfti því að fara með hann á lögreglustöð til þess að ganga úr skugga um hver hann væri. Ekið var á hjólreiðamann í Kópavogi í gærkvöldi. Hafði maðurinn verið að hjóla yfir gangbraut þegar bifreið ók á hann. Fann hann til í mjöðm og hné eftir slysið. Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir. Einn hafði ekið of hratt, annar er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og sá þriðji var ekki með gild ökuréttindi.