Fram kemur í grein Fréttablaðsins að menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hafi sagt nýverið á Safnaþingi á Austfjörðum að hún harmaði að hafa skipað Hörpu Þórsdóttur sem þjóðminjavörð án auglýsingar.
Vísaði Lilja í skipan sinni til undanþáguákvæðis í starfsmannalögum sem heimilar tilfærslu embættismann; Lilja Dögg sagði á Safnaþinginu – eftir að gagnrýni kom fram á störf hennar að hún hefði ekki staðið að skipaninni ef hún hefði vitað hvaða viðbrögð yrðu í samfélaginu.
Nálægt 100 manns urðu vitni að yfirlýsingunni og setti marga hljóða, eftir því Fráttablaðið greinir frá:
„Lilju var mjög mikið niðri fyrir. Hún harmaði að hafa fært til embættismann í starfi með þessum hætti,“ sagði Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, en hún er formaður Íslandsdeildar ICOM, alþjóðaráðs safna:
„Við upplifðum að hún sæi sannarlega eftir þessu.“
Áður en þingið fór fram hafði Lilja Dögg varið skipan sína með því að Harpa hefði verið yfirburðahæf til að hljóta stöðuna; hafði þá safnafólk notað orð eins og hneyksli um skipanina.
Það var svo í gær að Lilja Dögg boðaði til fundar með formönnum félaga sem hafa sent frá sér nokkuð harðorðar yfirlýsingar:
„Þetta var góður fundur, ráðherra tjáði vilja til sátta. Hún getur ekki afturkallað skipanina sem hefði verið best strax í upphafi, en Lilja lýsti vilja til að vinna áfram að málefnum allra höfuðsafnanna þriggja,“ segir Ólöf Gerður, og bætti þessu við:
„Það var ákveðið að stofna samráðshóp til að ræða fyrirkomulag, skipunartíma og auglýsingar við þessar þrjár stöður höfuðsafnanna,“ sem eru Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.