Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Bergman við Hrafn: „Hvernig eiga þeir sem geta ekki haldið við einu klósetti að reka kjarnorkuver?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrafn Gunnlaugsson er án efa eitt stærsta nafn íslenskrar kvikmyndasögu. Og án efa einn af umdeildari og mikilvægari kvikmyndagerðarmönnum Íslands, og þótt víðar væri jafnvel leitað.

Myndir hans eru áleitnar og í þeim er að finna samfélagslega gagnrýni – Óðal feðranna, árið 1981 – tilraunamennsku sem heppnaðist gífurlega vel í uppáhaldskvikmynd þess sem heldur um pennann í þessari grein – Okkar á milli – í hita og þunga dagsins, árið 1982; mynd sem brýtur hressilega upp hið „samþykkta“ kvikmyndaform, sem var einfaldlega steingelt á Íslandi á þessum árum – gjörsamlega steingelt.

Stórkostlegt listaverk að öllu leyti þessi kvikmynd.

Hrafn hristi upp í þessum gelda kvikmyndagerðarheimi með auðugu ímyndunarafli; frábærri tónlistarnotkun og mörgum stórkostlegum senum sem eru ekkert annað en listaverk.

Svonu litu alvöru töffarar út í den.

Hrafn er stór og mikill karakter sem hefur afrekað margt og mikið. Ekki bara sem leikstjóri, heldur einnig sem dagskrárstjóri RÚV, þar sem segja má að hann hafi komið RÚV út úr grárri forneskjunni og inn í nýja tíma. Ég man það vel þegar Hrafn tók við stjórninni á RÚV – allt í einu vorum við Duran Duaran-unglingarnir farnir að horfa á RÚV! Ungt fólk kom til starfa og drepleiðinlegir þættir eins og Maður er nefndur og margir aðrir hryllilega leiðinlegir þættir luku keppni án nokkurra mótmæla.

Hrafn fékk marga stórkostlega listamenn til að koma á Listahátið. Hann fékk Leonard Cohen heitinn hingað til lands.

Hrafn er þannig gerður að orðin hálfkák og meðalmennska eru sem eitur í beinum hans; Hrafn vill annaðhvort allt eða ekkert, og hefur aldrei slegið af kröfum sínum; fyrir það hefur hann hlotið lof og last, eins og títt er um fólk sem er óhrætt að segja skoðanir sínar og að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Hikaði aldrei þegar þurfti að taka stórar ákvarðanir. Stór persónuleiki í alla staði.

Hinn stórkostlegi og skrautlegi leikstjóri, John Waters, var gestur Hrafns á Listahátíð. Fór vel á með þeim, enda báðir stórir og öðruvísi karakaterar..

Árið 1994 kom út alveg sérlega skemmtileg, fróðleg og athyglisverð bók, eftir Árna Þórarinsson blaðamann til margra áratuga: Bókin er ævisaga Hrafns frá fæðingu og til þess tíma er hún leit dagsins ljós: Krummi – Hrafns saga Gunnlaugssonar. 

- Auglýsing -

Sögurnar í bókinni eru sumar hverjar ævintýralegar, og hægt að skrifa nánast heilan sagnabálk um afrek Hrafns; en hann var mun virtari og vinsælli víða um heim en hér á Íslandi.

Frábær bók í alla staði. Til á flestum almennilegum bókasöfnum.

Og hann var elskaður í Svíþjóð – en þar sló mynd hans, Hrafninn flýgur, algjörlega í gegn og gerði Hrafn að heimsfrægum leikstjóra, sem hann átti svo sannarlega skilið. Eftir árangurinn í Svíþjóð fóru Íslendingar loksins að meta Hrafn sem kvikmyndagerðarmann og einnig sem stóran persónuleika og skrautlegan; skemmtilegan mann sem hikaði aldrei; lét bara alltaf vaða.

Hrafn og ekkja Pablo Picasson, Jacqueline Roque, á Listahátíð árið 1986. Jacqueline tók sitt eigið líf sama ár og þessi mynd var tekin.

Af mörgum skemmtilegum sögum úr bókinni, er sagan þegar Hrafni tókst að fá sjálfan Ingmar Bergman, einn merkasta kvikmyndaleikstjóra sögunnar, til Íslands, einna sérkennilegust. En frægt var hversu tregur og óviljugur Bergmann var að ferðast og koma fram opinberlega; honum leiddist það.

- Auglýsing -
Ein besta kvikmynd Íslandssögunnar.

En þegar Hrafn hringdi þá var Bergman til í slaginn, enda hafði hann sem og öll Svíþjóð gjörsamlega heillast af kvikmyndinni Hrafninn flýgur sem kom út árið 1984. Stórkostleg mynd sem gerð var fyrir lítinn pening en hafði á sér yfirbrag stórmyndar; sem og hún sannarlega var og er. Íslenskur fornaldar-vestri í sérflokki.

Listahátíð hafði gert ítrekaðar tilraunir til að fá Ingmar Bergman til Íslands. Alltaf kom afsvar. Hann var hættur að ferðast (bls. 106).

En Hrafn var ekki á því að gefast upp, og hringdi heim til Bergmans, og eiginkona hans, Ingrid, svaraði í símann:

Ég sagðist heita Hrafn Gunnlaugsson. Og hvað hefur þú svo gert? spurði hún. Bíómyndir svaraði ég. Jæja, hvaða myndir? spurði hún. Hrafninn flýgur til dæmis, svaraði ég, enda var það eina myndin sem Svíar vissu einhver deili á. Er það virkilega? spurði hún þá, Ingmar hefur horft á hana oftar en einu sinni í einkabíóinu sínu (bls. 106).

Og Bergman tók símann:

Heyrðu, ert þú þessi mikli sagnamaður? sagði Bergman og bætti við: Loksins hefur gamla norræna sagnahefði verið endurvakin og það í kvikmyndum. Ég hef ákveðið að þiggja boð þitt um að koma til Íslands (bls. 106).

Ingman Bergman kom því í heimsókn til Íslands, og að sjálfsögðu tók Hrafn á móti honum í flugstöðinni gömlu, sem nú heitir Leifsstöð. Hrafn byrjaði á því að keyra með Bergman í Bláa lónið, sem þá var ekki sú okurbúlla og ferðamannagildra eins og raunin er í dag. En Bergman var með exem og Hrafn vildi sýna þeim sænska hversu mikla og góða virkni á húð og heilsu vatnið í Bláa lóninu er. Var Bergman ánægður og sagði vatnið hafa haft góð áhrif á exemið.

Tveir góðir; umdeildir og uppátækjasamir: Hrafn og Erró.

Já, Bergman kom því sem gestur Listahátíðar árið 1986. Hrafni fannst Bergman sérstakur karakter. Hrafn bjóst við miklum samræðum um gildi kvikmyndagerðar fyrir samfélagið og annað í þeim dúr – tengt kvikmyndagerð. En, ónei, svo var ekki. Bergman vildi frekar ræða um þarfir sem allar manneskjur hafa – þörfin að kúka, og hann pældi mikið í kúk, sem kom Hrafni í opna skjöldu:

Hann fór inn á salernið og sturtaði niður. Heyrðu, sagði hann, vatnið snýst í skálinni. Ég vil ekki nota svoleiðis klósett. Ég vil ekki að kúkurinn snúist í hringi. Ég vil að hann fari beint niður. Alltaf þegar ég er búinn á klósettinu stend ég upp, virði fyrir mér kúkinn og horfi á hann hverfa og ég vil ekki sjá hann tætast í sundur í svona hringiðu (bls. 108).

Hinn dáði sænski og heimsfrægi leikstjóri, Ingmar Bergman, pældi mikið í kúknum sínum. Og Hrafn var eiginlega stúmm:

Ég hafði hlakkað til að hitta þennan mikla snilling og andans mann, sem ég hafði alltaf dáð úr fjarlægð, fá tækifæri til að tala við hann og nema visdómsorð af vörum hans, en svo talaði hann um kúk! Hann fór að segja mér ýmsar sögur um reynslu sína af ólíkum klósettum. Til dæmis væri engin furða að Tsjernobyl kjarnorkuverið hefði bilað því ekki væri til eitt einasta klósett í Rússlandi sem virkaði. Hvernig eiga þeir menn sem geta ekki haldið við einu klósetti að reka heilt kjarnorkuver? spurði hann (bls. 107).

Ein af þekktari perlum sem Ingmar Bergmann gerði – kvikmyndin Persona frá árinu 1966.

Já, þarna fékk Hrafn ekki mikið upp úr Bergman varðandi kvikmyndagerð – en fékk nánast heila B.A. ritgerð um kúkinn sinn, sem og þau klósett sem hann hafði prófað á ferðalögum sínum í gegnum tíðina.

En sem betur fer fyrir Hrafn, hitti hann Bergman nokkrum sinnum eftir að heimsókn hans til Íslands, og þá gaf Bergman Hrafni nokkur góð ráð sem nýttust honum vel síðar á ferlinum. En minntist þá ekkert á kúk.

Lýkur þar með frásögninni af því þegar Ingmar Bergman hafði engan áhuga á að tala við Hrafn Gunnlaugsson um kvikmyndagerð en vildi bara tala um kúkinn sinn.

Endir.

Heimild: Krummi – Hrafns saga Gunnlaugssonar. Árni Þórarinsson. Fróði hf. 1994.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -