Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í Þvottahúsinu er enginn annar en listamaðurinn Egill Sæbjörnsson. Egill kom áður til bræðranna fyrir rúmu ári síðan í þátt nr. 34. Þar fóru þeir í söguna hans Egils sem leiddi hann að hinni kjöthráu rafrokks plötu Tonk of the lawn sem kom út um síðustu aldarmót. Platan Tonk of the Lawn er án efa ein af mestu költ plötum Íslands. Hljómurinn kom hrár eins og ljónsöskur eftir margra ára bælingu og fjötrun. Þessi einlæga plata er án efa ein sú frumlegasta og sjálfbærasta sem komið hefur út í manna minnum hér á landi.
Í þessum þætti hins vegar var farið örlítið öðruvísi að viðmælandanum en gengur og gerist hjá bræðrunum í Þvottahúsinu. Handrit þáttarins byggði Gunnar út frá texta lagsins „Im not 100% reliable“ sem er lag nr. 4 á plötunni Tonk of the Lawn. En út frá textanum náðu þeir svo að spinna hálf samhengislaust klukkustundar langt spjall um heima og geima.
Af barnum og beint í tölvuna
Þó svo að þetta klukkustundar langa samtal hafi verið hálf samhengislaust snérist þemað þó fljótt að þessum ólíku elementum sem býr innra með okkur öllum og mynda þennan stöðuga núning milli leiks og sköpunar, og formfastri hugmyndarfræði hins vegar. Þessi formun og uppskrift sem snúa að reglum, lögum og venjum er okkur gert að fylgja í samfélaginu.
Egill minntist þess hvernig hann sem ungur maður skrifaði og söng þennan texta út frá einskonar óljósri golu innsæis sem hann hafði enga hugmynd um að væri sterk kortlagning á ferli hans sjálfs sem snéri að andlegum þroska sem og félagslegum. Djúpt innsæi hans fer með hlustandann á ferðalag þar sem alteregóið hans, Móri stígur stöðugan dans við niðurnjörvað sjálfið. Móri er stríðinn og kvikur, hreyfir sig eftir tilfinningu og klárlega er ljósið sem gefur lífinu tilgang í þyngslum efnishyggjunar. „Ég held ég muni eftir því þegar ég samdi þetta lag. Ég bjó í Berlín, þetta hefur verið snemma árs 1999 og ég er að koma heim af einhverjum bar. Og þá er þessi setning einhvern veginn í hausnum á mér. Og ég geng inn um útidyrnar og upp á þriðju hæð og sest við tölvuna og byrja að taka upp þetta lag,“ sagði Egill og var að tala um setninguna „I always take responsibility“ sem kemur fyrir í laginu „Im not 100% reliable“. Hann hélt áfram: „Það er bara einhver leikgleði í þessu. Ef við erum bara krakkar að leika okkur þá erum við ekki 100% reliable. Þá þurfum við ekki að segja það sem er rétt. Ég held að þetta hafi bara verið til að fá léttleikann í lífið.“
Slaufunarmenningin
Mikið var rætt um slaufunarmenningu eða cancel culture sem stöðnun, ofbeldi og klár brot á náttúrulegri hreyfingu og þroska mannsins. Egill vill meina að með hjalinu, samræðunum sem svo oft er svo útilokað með cancel náum við mennirnir að vaxa og þroskast í gegnum samskipti þar sem við upplifum að við njótum öryggis og kærleiks. „Hjalið er svona anti-cancel culture. En svo er þetta svo bloody hættulegt því þið munuð svo senda þetta út á netinu og þá kemur eitthvað lið og fer að hakka í því sem maður er að segja,“ sagði Egill og var að tala um svona hjal á milli fólks eins og Wiium bræðra og hans, bara frjálst spjall um allt ekkert. Aðspurður hvort honum sé ekki alveg sama um viðbrögðin sagði Egill: „Jú en þetta getur líka haft afleiðingar, það er það sem er orðið svo erfitt.“ Sagði hann frá vinkonu sinni sem hefði nýverið skrifað á Instagram að þegar hún lærði heimsspeki í Þýskalandi fyrir 20 árum síðan hafi heimsspekin verið grundvöllur til að prófa sig áfram, ræða allskonar hluti, hvort sem það var „rétt“ eða „rangt“, í gegnum orðræðuna. „En í dag hefur vinkona mín það á tilfinningunni að meira að segja innan heimsspekinnar þori maður ekki lengur að tjá sig frjálst.“
Egill segir slaufunarmenninguna vera tímabil: „Cancel culture er ákveðinn samdráttur, það er margt gott sem það leiðir af sér en ég held að of mikil ritstýring sé svolítill Nasismi.“
Lagið “Im not 100% reliable” fer með hlustandann í ferðalag sem endar á uppljómum mannsins. Uppljómun sem snýr að tengslum innri manns við hið óskilyrta sem klárlega býr innra með okkur. Þessi samruni fær okkur til að taka af okkur skóna og sleppa af okkur beislinu í bland við alvarleikann sem annars einkennir einstaklinga innan samfélags sem einkennist af hraða og bugun.
Þetta listræna og djúpa manneskjuspjall má sjá í heild sinni hér á spilaranum fyrir neðan auk þess að Þvottahúsið má finna á öllum helstu streymisveitum á jörðinni, Spotify svo eitthvað sé nefnt.