Aðaleigandi íslenska flugfélagsins Icelandair geymir hlut sinn í félaginu í skattaparadís sem notuð er af alþjóðlegum félögum til að komast hjá skattgreiðslum. Um er að ræða bandaríska hrægammasjóðinn Bain Capital sem með 17 prósenta eignarhlut sínum er langstærsti hluthafi Icelandair.
Hlutinn geymir sjóðurinn í írska félaginu Blue Issuer en Írland er þekkt skattaparadís. Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans og fyrrverandi ráðherra, er ekki sáttur.
„Það kemur ekki á óvart að þessi eignarhlutur sé geymdur í skúffu í skattaparadís. Það er auðvitað gert til að greiða sem minnst í sameiginlega sjóði. Það er væntanlega fyllilega löglegt en sýnir bara mikilvægi þess að loka almennt fyrir þær glufur sem skattaskúffur búa til í skattkerfum,“ sagði Gylfi í samtali við Túrista.is.