Afmælisbarn dagsins er hinn umdeildi skopteiknari, uppistandari og listamaður, Þórarinn Hugleikur Dagsson eða bara Hugleikur Dagsson eins og hann er gjarnan kallaður. Ku hann vera 45 ára í dag.
Húmor Hugleiks þykir nokkuð grófur en frægðarsól hans tók að skína upp úr aldarmótunum en árið 2002 kom út skopmyndabókin Elskið okkur. Í kjölfarið fylgdu bækur sem báru nöfn eins og Drepið okkur, Ríðið okkur og Fermið okkur. Þá hefur Hugleikur einnig skrifað handrit að leikritum, Áramótaskaupum og gamanþáttum svo eitthvað sé nefnt.
Mannlíf bjallaði á afmælisbarnið og spurði hvort hann ætlaði að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
„Já, það er rosa boring bara, ég ætla bara fara út að borða. Með kærustunni.“
Þegar blaðamaður Mannlífs spurði Hugleik út í komandi verkefni var hann ansi dularfullur í svörum: „Ekkert sem ég get talað um að svo stöddu. Það er voðalega lítið sem ég get tjáð mig um.“
Mannlíf óskar snillingnum Hugleiki til hamingju með daginn og bíður spennt eftir að sjá meira frá honum, hvað sem það nú kann að vera.