Fæstum þykir það gott að gera sig að fífli og hvað þá að fara þangað sem þeir eiga ekkert erindi og vera þar kallaðir bölvaðir viðvaningar. Þeir Jón Sigurður og Rucio eru hinsvegar á því að þetta sé hið besta mál og því til sannindamerkis draga þeir fram reynslu Jóns Sigurðar á ólífurakrinum hér á Spáni þar sem hann gerði sig að algjöru fífli en þó með hreint dásamlegum afleiðingum. Hann er allt annar maður á eftir.
Jón Sigurður rekur þessar raunir sínar sem fóru svo farsællega. Svo tala þeir ferðafélagar um söngvaskáldið Jorge Drexler sem kom frá Úrugvæ til Spánar eftir hvatningarorð frá Joaquin Sabina, sem er líklegast frægasti tónlistamaður þeirra Spánverja, einhverskonar
Bubbi, mætti segja. Drexler sló í gegn en þó var hann ekki nógu frægur til að fá að stíga á stokk á Óskarsverðlaunahátíðinni þó hann væri tilnefndur til þeirra verðlauna fyrir lag sitt Al otro lado del Río (Hinumegin við ánna). Svo í stað þess að vera heiðraður var honum refsað og það af ekki minni mönnum en Antonio Banderas og Carlosi Santana. Eins gott að vera heimsfrægur ef maður er tilnefndur til svona verðlauna.