Flóra, vegglistaverk Söru Riel, er tilbúið og verður því fagnað formlega á laugardaginn. Sara hefur unnið í verkinu frá því í byrjun ágúst.
Vinnu við nýtt vegglistaverk sem Sara Riel málaði á gömlu spennistöðina við Austurbæjarskóla er lokið og verður því fagnað á laugardaginn. Verkið heitir Flóran en um 250 fermetra stóra veggmynd er að ræða.
Sýningin á laugardag hefst í Listamenn gallerí á Skúlagötu 42 og þaðan verður haldið upp í Austurbæjarskóla til að berja vegglistaverkið augum.
„Verkið er samansett úr plöntum sem nemendur í Austurbæjarskóla (2018 – 2019) völdu sem staðgengla sína, en þeir svöruðu spurningunni „Ef þú værir planta, hvaða planta værir þú og af hverju?“ með teikningu og skýringartexta,” segir um verkið á vef Reykjavíkurborgar.
Verkið er unnið sem hluti af íbúalýðræðisverkefninu „Hverfið mitt“ þar sem íbúar leggja inn hugmyndir og kjósa hvaða verkefni koma til framkvæmda.