Lögreglu barst tilkynning um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108 í gærkvöldi. Þjófurinn hafði á brott með sér útivistarbúnað og er málið til skoðunar hjá lögreglu. Síðar um kvöldið barst lögreglu önnur tilkynning um þjófa. Annar hafði stolið matvörum úr verslun en hinn hafði brotist inn í nýbyggingu og stolið þar verkfærum.
Í Árbæ gáfu lögreglumenn ökumanni merki um að stöðva akstur en ökumaðurinn hunsaði fyrirmælin. Hófst þá langur eltingaleikur um Grafarvoginn og Mosfellsbæ en á ferð sinni ók maðurinn meðal annars of hratt, yfir hringtorg og á móti umferð. Sáu lögreglumenn manninn einnig tala í síma við aksturinn. Lögregla greip til örþrifaráða og notaði naglamottu til að stöðva akstur bifreiðarinnar og handtók loksins ökuníðinginn. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna en samkvæmt dagbók lögreglu verður hann kærður fyrir fjöldann allan af umferðarlagabrotum. Þá stöðvaði lögregla tvo aðra ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.