Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þeir sem vilja sýna stuðning sinn við Úkraínu í verki ættu að sniðganga veitingastaðina Metro, American Style, Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkan, Shake & Pizza og Blackbox. Allir þessir staðir eru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
Ólafur skrifar á Facebook: „Hvað eiga veitingastaðirnir Metro, American Style, Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkan, Shake & Pizza og Blackbox og afþreyingarstaðirnir Keiluhöllin og trampólíngarðurinn Rush sameiginlegt? Jú, þeir eru nú allir í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, þar sem einn af æðstu stjórnendum ber nafnbótina heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi. Hann sagðist í viðtölum síðastliðið vor „ekki einu sinni [hafa] hugleitt það“ að segja af sér þessari heiðursnafnbót eftir að ríkið sem veitti honum hana hafði orðið uppvíst að skelfilegum stríðsglæpum í Úkraínu. Ég veit þá hvert ég er ekki að fara með fjölskylduna að fá mér að snæða.“