„Ég var 18 ára gömul þegar ég sóttist eftir vinnu sem var í huga mínum mjög spennandi og eftirsóknarverð. Ég hafði farið á nektarstað og upplifað konurnar sem unnu þar sem sterkar og ósigrandi og vildi verða eins og þær. Ég kem af brotnu heimili og var þolandi kynferðisofbeldis og eineltis þannig að það var kannski ekkert skrítið þótt ég hrifist af þessum ótrúlega flottu konum sem voru klæddar eins og drottningar, með blásið hár og seiðandi augnaráð. Ég hafði aldrei séð svona konur áður og í mínum huga virtust þær ósigrandi.
Þær gengu milli borðanna á staðnum og mennirnir slógust um að tala við þær, þeir ýttu að þeim kampavíni og peningum og það eina sem þær gerðu var að tala við þá og þær virtust njóta þess. Svo stigu þær á svið og dönsuðu kynþokkafullt, sveiflandi hárinu og kattliðugar gerðu þær hinar fallegustu æfingar á járnsúlu. Ég hafði bara aldrei séð neitt þessu líkt og þar með var það ákveðið! Ég skyldi sækja um vinnu og verða nákvæmlega eins og þessar gyðjur. Ég sótti um og fékk vinnuna. Grét eftir fyrsta skiptið.
Dagur eitt: ég steig á svið, fór úr fötunum – tónlistin í botni– graðir karlar á kollum við sviðið, fyrsti 500-kallinn kom fljúgandi en ég var jafn nakin á sviðinu þrátt fyrir hann. Svo kom næsti og næsti og næsti. Lagið kláraðist, ég tók upppeningana – fór niður í búnings-herbergi nakin og brast í grát. Þetta var alls ekki eins glamúrös og ég taldi, en það versta var búið, áleit ég, næsta skipti yrði ekki eins ömurlegt – og það stóðst. Ég varð góð í þessu, svo góð að ég var beðin um endurgreiðslu í eitt skiptið eftir að einn karlinn hafði eytt of miklu í mig og átti ekki fyrir jólagjöfum handa börnunum sínum. Það kom mér ekki við og hann hélt heim á leið með hnút í maganum en ég var með hnút á veskinu svo seðlarnir myndi ekki fjúka úr því.
Ég varð einskonar seleb þarna inni og fékk til mín fastakúnna sem elskuðu að sjá mig dansa fyrir sig, bæði á sviði sem og í einkaherberginu, sumir vildu að ég baðaði mig í sturtuklefanum sem var í einu herberginu – aðrir vildu að ég dansaði á þeim og nuddaði mér fram og aftur, upp og niður, aðrir voru með eitthvað skrýtið kínk fyrir mat og svo mætti lengi telja. Þarna upplifði ég í fyrsta sinn frelsi og að ég væri að slá eign minni á eigin líkama eftir áralangt ofbeldi þar sem ég átti ekki líkama minn. Ég upplifði að ég réði hvað ég gerði og hvernig, og elskaði að upplifa að karlmaðurinn væri undir mér og hann væri valdalaus í mínu rými. Þarna inni á staðnum myndaðist sterkur vinahópur þar sem dj-inn, dyraverðirnir og dansararnir héngu saman og þetta varð hálfgerð paradís fyrir litlu brotnu mig – þarna var ég örugg, eða hvað?
Hlustaði ekki á innsæið. Ég var send til að dansa í einkasamkvæmi sem var ekki svo óalgengt og það var góður peningur í því svo við gerðum það með glöðu geði, en andrúmsloftið var einhvern veginn öðruvísi þegar þetta var bókað á mig, ég fann það í beinunum að það var eitthvað skrýtið. Ég ákvað að hlusta ekki á innsæið heldur fór ég ásamt einum af dyravörðunum, á ónefndan veitingastað í borginni. Þar beið hann, karlhelvítið. Hann hafði borgað fyrir að fá að nauðga mér.“ Lestu átakanlega lífreynslusögu í heild sinni í helgarblaði Mannlífs.