Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Ormarnir í gulli verkafólksins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppnámið á þingi Alþýðusambands Íslands vekur til umhugsunar um það gagnsleysi sem er af verkalýðsfélögum. Þremenningarnir sem klufu sambandið hafa væntanlega talið það vera óþarft og jafnvel til óþurftar. Þeir horfa til þess að hvert og eitt félag geri meira gang en sameinað afl.

Launþegar og atvinnurekendur leggja verkalýðsfélögunum til gríðarlegt fjármagn. Aðild að verkalýðsfélagi er íþyngjandi í þeim skilningi að háar upphæðir eru dregnar af launum fólks til að halda kerfinu gangandi. Félögin eru ekki aðeins að gæta hagsmuna sinna félagsmanna, heldur einnig að leigja þeim aðgang að orlofshúsum, hjálpa til við tannviðgerðir og jafnvel aðstoða við að jarðsyngja félagsmenn. Minnsti þátturinn er sá að gera kjarasamninga eða gæta kjara félagsmanna. Tekjur til félaganna hlaðast gjarnan upp í sjóði sem gefa færi á því að beita afli á ýmsum sviðum.

Verkalýðsforingjar eru gjarnan að ásælast völd

Verkalýðsfélögin í landinu eru sum hver gegnsýrð af þeirri spillingu sem felst í valdatafli af ýmsu tagi. Pólitík er eins og rauður þráður í samtökum þeirra og jafnvel stofnaðir stjórnmálaflokkar sem nýta sér það afl sem liggur í verkalýðsfélögum. Forkólfar félaganna taka sér laun sem í flestum tilvikum eru langt yfir launum félagsmanna þeirra. Þannig er formaður í stærri verkalýðsfélögum með laun sem eru yfir milljón á mánuði. Hæstu heildarlaun verkalýðsforingja eru nær tveimur milljónum króna mánaðarlega. Það eru fjórföld laun þeirra skjólstæðinga sem hafa lægstu launin. Með réttu ætti verkalýðsforingi að vera með tekjur sem nema meðallaunum í félagi hans. Annað lyktar af sjálftöku.

Verkalýðsforingjar eru gjarnan að ásælast völd. Oft er það samtvinnað við lífeyrissjóðina sem er annað risavaxið bákn sem fjarlægst hefur félagsmenn sína. Sjóðum er safnað og ormarnir í gullinu hagnast á braski með almannafé. Völdin í lífeyrissjóðunum og verkalýðshreyfingunni samtvinnast síðan og spillingin myndgerist. Hagsmunir fólksins verða aukaatriði en völdin aðalatriði.

Það er vandséð hvað óbreyttur félagi í verkalýðsfélaginu Eflingu græðir á því að leggja til langt yfir 10 prósent af launum sínum til lífeyrissjóðs og verkalýðsfélags. Ofsagróði lífeyrissjóðanna fer gjarnan í það að næra sjálft kerfið og leita leiða til þess að skerða útborganir til eigenda lífeyrisins eða að minnsta kosti tryggja að þær hækki ekki. Raunin er gjarnan sú að þegar láglaunafólk kemst á aldur er ellilífeyrir ríkisins gjarnan hærri en sú upphæð sem lífeyrissjóðir reikna einsaklingunum. Lífeyrisgreiðslur falla því óbættar niður og starfsmaðurinn hefur borgað til einskis alla sína starfsævi.

Árangur verkalýðsfélaganna undanfarna áratugi er afskaplega dapur. Reglulega er stiginn stríðsdans og kröfur settar fram um háar kjarabætur. Lyktir eru gjarnan moðsuða sem felur í sér kyrrstöðu eða jafnvel afturför. Þetta á við um flest verkalýðsfélög.

- Auglýsing -

Barátta þremenninganna sem klufu Alþýðusambandið ætti að verða fólki hvatning til þess að siðvæða verkalýðsfélög og lífeyrissjóði í því skyni að létta launþegum lífið. Lækka þarf útgjöld félaganna og sjóðanna og auka þannig tekjur launþega. Hófsemi ætti að vera leiðarljósið í þeim efnum. Eigendurnir verða að rísa upp gegn óþurftarfólkinu.

Nýtt hefti Mannlífs kemur út í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -