Landhelgisgæslunni barst hjálparbeiðni síðdegis í fyrradag á haf út vegna bráðra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi.
Áhöfnin á TF-GRO var kölluð út á fimmta tímanum í fyrradag, samkvæmt Landhelgisgæslunni, vegna veikinda um borð í farþegaskipinu Ambience sem statt var um 160 sjómílur út af Garðskaga.
Er þyrlan nálgaðist skipið fékk skipstjóri þess fyrirmæli um stjórntök og hraða vegna hífingarinnar frá skipinu. Var skipið beðið um að beygja upp í vind og hægja ferðina niður í sex hnúta ferð.
Læknir þyrlunnar fór um borð í skipið ásamt sigmanni, við bakborðshorn þess eftir að tengilínu var slakað niður. Þegar í skipið var komið var hugað að sjúklingnum og hann undirbúinn undir hífingu.
Þá segir á heimasíðu Gæslunnar að þegar búið var að búa um sjúklinginn hafi verið tekið á móti króknum. Læknirinn hafi farið fyrst upp, því næst sjúklingurinn í börunum og síðastur upp fór sigmaður þyrlunnar með farangur sjúklingsins.
Þegar hífingunum lauk var áhöfni skipsins þakkað fyrir samstarfið og hélt þyrlan til Reykjavíkur. Hafði skipstjóri skemmtiferðaskipsins sérstaklega orð á því að hversu hratt verkefnið gekk fyrir sig og þakkaði þyrlusveit Gæslunnar innilega fyrir snögg viðbrögð.
Meðfylgjandi myndband sýnir hvernig verkefnið gekk fyrir sig í fyrradag.