Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi um einstakling í annarlegu ástandi í strætó. Strætisvagninn var stöðvaður í hverfi 108 þar sem einstaklingurinn var handtekinn. Er hann grunaður um vörslu fíkniefna og var hann látinn gista bak við lás og slá eða þar til hægt verður að ræða við hann.
Síðar um kvöldið var lögregla kölluð út í Hlíðarnar. Þar svaf einstaklingur ölvunarsvefni í stigagangi en lögregla kom manninum til síns heima. Í sama hverfi voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður á völlunum í Hafnarfirði, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Að öðru leyti virðist nóttin hjá lögreglu hafa verið nokkuð róleg ef marka má dagbók lögreglunnar að þessu sinni.