Tvíburasysturnar Svanhildur og Hlaðgerður Snæbjörnsdætur fagna 100 ára afmæli sínu í dag, 14. október. Engir íslenskir tvíburar hafa náð hærri aldri en þær eineggja systur.
Hlaðgerður og Svanhildur fæddust í Svartárkoti í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu og voru á fjórða ári þegar þær voru skírðar, ásamt yngri bróður sínum. Systkinin voru sjö. Hæstum aldri náði Árný Snæbjörnsdóttir, sem varð 101 árs.
Okkur líður bara ágætlega í dag. Dagurinn í gær er alveg eins og dagurinn í dag og þetta líður bara. Okkur líður samt ágætlega þótt við höfum ekkert sérstakt fyrir stafni, þannig séð,“ segir Svanhildur í samtali við Fréttablaðið.
Systurnar búa nálægt hvor annarri og eru duglegar að hittast. Svanhildur sér orðið illa og hlustar því mikið á hljóðbækur.
„Það er ein bókasort sem ég vil ekki og það eru morðbækur. Þetta kemur manni bara í illt skap og leiðindi þegar það þarf að finna einhverja morðingja. Allir ungir höfundar í dag virðast byrja á morðbókum, ég skil þetta bara ekki, svei mér þá! Er það svona spennandi þegar einhver myrðir einhvern?,“ spyr Svanhildur.
Og því er Hallgerður sammála. „Ég er ekki fyrir þá heldur. Ég vil heldur góðar ferðasögur og ævisögur,“ segir hún.